152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er nú merkilegur fjandi að hér skuli þingmenn koma trekk í trekk og vera að reka hornin í Reykjavíkurborg sem hefur samkvæmt öllum tölum staðið sig langbest meðal sveitarfélaga í landinu. Samanburðurinn er að vísu tekinn af sveitarfélögum hérna í kring sem hafa staðið sig snautlega. En mér rennur reyndar blóðið til skyldunnar og vil nefna annað sveitarfélag sem stendur sig líka vel og kemur bara á hælana á Reykjavík og það er Akureyrarbær. Þessi tvö sveitarfélög eiga það sameiginlegt að Sjálfstæðisflokknum hefur verið haldið frá völdum þar í meira en tvö kjörtímabil. Það skyldi þó ekki vera samhengi þar á milli.

Fyrir tveimur árum lagði ég fram þingsályktunartillögu um það að skilyrða ákveðin hlutföll á sveitarfélög í landinu þegar kemur að félagslegu húsnæði. Hver veit nema ég taki hana fram aftur eftir þessa umræðu og leggi fram. En mig langar að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra í framhaldi af ágætri framsögu hans hérna áðan. Hann talaði um aura í fjármálaáætlun 2023–2026, en það virðist ekki vera mikið svigrúm í núverandi fjármálaáætlun. Þess vegna spyr ég: Með hvaða hætti ætlar ráðherra að koma með fjármuni þar inn? Er hann að tala um að flytja það frá öðrum málaflokkum eða hvernig ætlar hann að gera þetta? Plaggið talar auðvitað fyrir sig og það er ekki að sjá að það sé mikið svigrúm. Það væri því ágætt að fá svar frá hæstv. ráðherra um hvernig hann hyggst gera þetta.

Annars þakka ég fyrir ágæta umræðu og bendi ykkur á ágætisplagg sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kallaði eftir á sínum tíma, sem sýnir að staðan eftir sveitarfélögum hérna á höfuðborgarsvæðinu fer algerlega eftir því hverjir eru í stjórn og hverjum er haldið utan stjórnar.