152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[15:00]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Loga Einarssonar um fjármálaáætlunina þá erum við nú bara að vinna hana og það skýrist þegar hún verður lögð fram. En það er margt sem bendir til þess að okkur hafi gengið jafnvel betur á síðustu árum en við töldum og vorum þó nokkuð ánægð með. Ég vona að það gangi eftir.

Ég vil líka þakka málefnalega umræðu þó að vissulega séu alls konar aðilar sem vilja halda sínu á lofti eða kenna einhverju um. Sjáum til, virðulegi forseti.

Það sem ég vil segja er að við erum með plan. Ég vil enda mál mitt á því í dag að segja frá því að á næstu dögum hyggst ég skipa stýrihóp til að móta húsnæðisstefnu fyrir Ísland, hina fyrstu, sem unnin verður í víðtæku samráði við hagsmunaaðila víða í þjóðfélaginu og verður húsnæðisstefnan væntanlega lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunartillögu. Ef mín áform ganga eftir verður lagður grundvöllur að því að hér á landi verði hægt að stórauka húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og horft til þess að setja markið á að byggðar verði allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum, þar af 7.000 með beinni eða óbeinni aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings eða lagaumhverfis. Við erum með öðrum orðum með plan, við erum með heildaráætlun.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þeir aðilar sem bera sameiginlega ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaði eru ekki sammála um ástæður mikilla hækkana á húsnæði á Íslandi. Við heyrðum það hér í dag. Að mínu mati er ljóst að þessi ágreiningur mun ekki skila okkur neitt áfram og veldur óásættanlegri pattstöðu. Nú er tími til að leggja þennan ágreining og þessar skærur til hliðar. Fortíð er fortíð og nú verðum við, ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og byggingariðnaðurinn, að horfa fram á veginn og skapa saman jafnvægi á húsnæðismarkaði. Stofnun nýs innviðaráðuneytis, sem undir heyra húsnæðismál, skipulagsmál og málefni sveitarfélaga, samgöngumál og byggðamál, er mikilvægur þáttur í því að ná nauðsynlegri yfirsýn til að hægt sé að taka markviss skref til að ná jafnvægi. Það er hins vegar ljóst að allir þeir sem að húsnæðismálunum koma þurfa að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu sem fram undan er.

Og já, við erum með framtíðarsýn, við erum með plan og það skýrist.