152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að hv. þingmaður á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og verður þar meðal þeirra sem fóstra málið í gegnum þingið langar mig að benda sérstaklega á eitt atriði sem kemur fram í greinargerðinni, atriði sem Reykjavíkurborg benti reyndar á í samráðsferli, en það varðar lagabreytingu sem gerð var í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir stuttu, fyrir tæpu ári, þar sem barnalögum var breytt. En það er rangt farið með það í greinargerð hvaða áhrif sú breyting hafði. Hugmyndin var að jafna foreldrastöðu fólks þannig að transfólk stæði jafnfætis gagnkynja pörum varðandi foreldrastöðu. Leiðin sem var hins vegar valin, leiðin sem varð ofan á hjá ráðuneytinu og meiri hluta allsherjar menntamálanefndar, var að bæta transfólki í hóp þess hinsegin fólks sem nýtur lakari stöðu samkvæmt barnalögum, sem nýtur ekki sjálfkrafa skráningar foreldratengsla samkvæmt barnalögum.

Mér þykir miður að þetta hafi ekki náðst í gegnum allsherjar menntamálanefndar fyrir ári þó að ég viti að hart hafi verið barist fyrir því á þeim vettvangi. Það er enn verra að rangt sé farið með þetta í greinargerð ráðherrans og mig langar bara að benda hv. þingmanni sérstaklega á þetta atriði vegna þess að það er svo einfalt að ná utan um þetta. Þetta er svo einföld lagabreyting sem hefði verið hægt að ná utan um hér fyrir tæpu ári. En það gæti orðið aukaafurð af vinnu nefndarinnar að koma með lítið breytingafrumvarp á barnalögum til að ná þessu markmiði sem ráðuneytið heldur ranglega fram að hafi náðst fyrir ári.