152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er nefnilega miður, eins og upphafsorð í skýrslu ráðherrans segja og það sem fyrrverandi ráðherra talaði um einmitt fyrir ári síðan þegar við héldum að við værum að komast út úr ástandinu, að í dag skulum við vera að upplifa annað skelfilegt ástand ofan á það sem Covid hefur haft í för með sér. Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum utan um, bæði hér heima en líka víða annars staðar, þær afleiðingar sem hafa orðið af allri þessari innilokun sem hlaust af faraldrinum eins og hæstv. ráðherra nefndi, sem er þetta aukna ofbeldi, sérstaklega gegn konum og börnum sem eru í varnarlausri stöðu o.s.frv. Við höfum verið að reyna að taka utan um þetta held ég og munum auðvitað halda því áfram því að sannarlega eru ekki komnar fram nema að litlu leyti eflaust afleiðingarnar sem þar eru undir og eiga eftir að koma í ljós.

Ég reyndar minntist ekki á það sem hæstv. ráðherra minnti mig á, að COVAX skipti máli, sem það auðvitað gerði. Okkar framlag var stórt miðað við lítið land þrátt fyrir að við séum ágætlega stöndug. Lærdómurinn, eins og ég sagði áðan, sem við þurfum aðallega að draga af þessu er einmitt fyrst og fremst sá að við þurfum að huga að því að við séum öll á svipuðum slóðum og taka undir með þeim þjóðum sem þurfa lengri tíma heldur en við til að framfylgja eða bjóða fólki þessa aðstoð.

Já, það er skelfileg aðstaða í Afganistan og þess vegna finnst mér svo mikilvægt að tala um það að lýðræðið er fótumtroðið, konur og börn hafa aldrei haft það verra en þau höfðu þó áður í ríki sem er frekar íhaldssamt. Konur höfðu samt sem áður tækifæri til að mennta sig og starfa og gera ýmsa hluti sem er hreinlega búið að banna núna og þarna ríkja einhverjar aðstæður sem við getum ekki sett okkur inn í.