152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:44]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu og jafnframt leyfa mér að hrósa ráðherranum fyrir skelegga framgöngu að undanförnu. Utanríkismál eru auðvitað gríðarlega umfangsmikill málaflokkur en þó hefur einhvern veginn verið svo að þessi málaflokkur, að mínu viti, hefur fengið allt of litla umræðu innan lands og ekki síst hér á þingi. Ég held að það sé eitthvað sem þingheimur getur tekið til sín og ég ætla svo sannarlega að gera það. Það er ekki sjálfgefið að halda úti öflugri utanríkisþjónustu eða vera svo heppinn að lifa í frjálsu og fullvalda landi. Þegar ég kom inn á þing og settist í utanríkismálanefnd og fór að kynna mér utanríkisþjónustuna betur kom mér á óvart hversu víðfeðm hún er, hversu mikið af öflugu fólki við eigum, hversu breið hún er og hversu víða í heiminum við erum að koma niður. Við eigum talsmenn úti um allan heim. Við erum með sendiráðsskrifstofur, fastanefndir, og síðan erum við með fulltrúa um allan heim og allt þetta fólk talar máli Íslands, stendur fyrir þau gildi sem við stöndum fyrir og tekur virkan þátt í því að efla utanríkisþjónustuna frá ári til árs.

Herra forseti. Þegar við förum yfir skýrslu sem þessa, sem snýr að utanríkismálum, þá verður ástandið í Úkraínu manni efst í huga. Þar blasir við fordæmalaus staða og flóttamannavandinn er gríðarlegur. Íslensk stjórnvöld hafa virkjað 44. gr. laga um útlendinga og Evrópusambandið hefur virkjað neyðaráætlun. Menn telja að sá fjöldi sem hingað leitar geti verið á annað þúsund manns. Kannski eru það ágiskanir en það kæmi mér ekki á óvart miðað við stöðuna. Ég er þess fullviss að við Íslendingar munum axla okkar ábyrgð og skjóta skjólshúsi yfir þetta fólk sem er að flýja stríðsátök. Við verðum að setja allt í gang strax. Ríkisstjórnin er sannarlega að bregðast við og búið er að skipa viðbragðsteymi og það hefur hafið störf.

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á nokkra punkta sem snúa að þeim þáttum sem mér eru efst í huga á þessum tímapunkti og þar er þjóðaröryggisstefnan kannski númer eitt, þjóðaröryggisstefna sem var samþykkt árið 2016 og liggur nú fyrir að þurfi að endurskoða. Ég tel hana að mörgu leyti reglulega góða. Hún kemur inn á helstu þætti sem vega þyngst í okkar varnarmálum, til að mynda aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og samninginn við Bandaríki Norður-Ameríku um varnir, sem mig minnir að sé frá 1951, en í ljósi aðstæðna er mjög nauðsynlegt að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna. Það er kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum og ég er viss um að sú vinna er eflaust hafin að einhverju leyti. Það þarf að vera í virku samráði við þingið og alla sem að þurfa að koma og ég geri ráð fyrir því að sú vinna sé að hefjast.

Í þjóðaröryggismálum breyttist margt 2014, að mínu viti, þó svo að efnahagsþvinganirnar sem þá voru lagðar á Ísland sem viðbrögð við þeim efnahagsþvingunum sem Íslendingar tóku þátt í vegna innrásarinnar á Krímskaga hafi verið mest í umræðunni. Þá breytti samt sem áður sú innrás inn í Úkraínu ansi miklu í öryggismálum í álfunni. Þeim sem vinna á þessum vettvangi og til þekkja fundu fyrir mun meiri hreyfingum, mun meiri starfsemi, mun meiri sýnileika þar sem menn voru að hnykla vöðvana og viðbrögð okkar hafa tekið mið af því. En umræðan um það hefur kannski ekki verið mjög mikil. Þess vegna fagna ég því að sjá í skýrslunni að aukinn þungi er settur í samstarf um öryggis- og varnarmál af hálfu stjórnvalda, bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og einnig í svæðisbundnu samstarfi, m.a. við Breta og Svíþjóð. Það er mikilvægt að Ísland taki virkan þátt í öndvegissetrum Atlantshafsbandalagsins og sérstaklega er tekið til öndvegisseturs um netöryggi í Tallinn og öndvegisseturs um fjölþáttaógnir sem staðsett er í Helsinki. Ég held að þarna getum við Íslendingar eflaust haft ýmislegt fram að færa. Við eigum öflugt fólk í þekkingu og vísindum og kannski ættum við að reyna að marka okkur sérstöðu í öryggis- og varnarmálum á þessum sviðum þó að við höldum fast í það að vera herlaus þjóð.

Virðulegi forseti. Í haust tekur Ísland við formennsku í Evrópuráðinu. Í því felst gríðarleg ábyrgð enda áskoranirnar sem lúta að mannréttindamálum og pólitísku ástandi í Evrópu miklar. Mannréttindi, lýðræði, umhverfismál, kynjajafnrétti er það sem lögð verður áhersla á í okkar formennsku. Þetta sýnir okkur það að Ísland er þjóð meðal þjóða og mun að sjálfsögðu standa sig í þessu hlutverki. Ég held að við höfum margt fram að færa varðandi alla þessa þætti en í formennsku munum við eflaust líka þurfa að standa í stafni og standa uppi í hárinu á þeim sem líta ekki mannréttindi og lýðræði sömu augum og við gerum og vinaþjóðir okkar.

Virðulegi forseti. Við vitum öll að staðan er breytt og sjálfur velti ég mikið fyrir mér og hef áhyggjur af þeim efnahagslegu áhrifum sem við sjáum nú þegar af stríðinu í Úkraínu og hvernig það mun bitna á álfunni og mögulega heiminum. Þá hef ég að sjálfsögðu mestar áhyggjur af því að hækkandi verð á alþjóðamörkuðum muni koma verst niður á þeim sem verst hafa það. Við þurfum að huga að því hér innan lands, við þurfum að huga að því að hafa góða yfirsýn yfir það hvernig hlutirnir eru að breytast efnahagslega. Við þurfum að undirbúa okkur undir það að verð á hrávöru til að mynda, hveiti og jafnvel málmum, fari hækkandi á heimsmarkaði sem mun hafa áhrif innan lands. Nú hefur áburðarverð rokið upp og það hefur mikil áhrif hér á landi. Mér skilst að 8% af öllum áburði sem framleiddur er í heiminum sé framleiddur í Rússlandi.

Ljóst er að olíuverð hefur hækkað gríðarlega og nú eru olíuframleiðsluríkin að reyna að bregðast við því á einhvern hátt. Það sýnir auðvitað mikilvægi þess að við vinnum áfram að sjálfbærni en hugum líka að því hvar við getum aðstoðað aðrar þjóðir við það að nýta endurnýjanlega orku og reyna smátt og smátt að draga úr þeim kvöðum sem eru á okkur varðandi jarðefnaeldsneytið.

Ég er stoltur yfir því að sjá það, frú forseti, að við Íslendingar tökum virkan þátt í því að standa gegn því stríði sem nú er háð í Úkraínu. En það sem hefur kannski komið mér mest á óvart er að óháðir aðilar, eins og til að mynda alþjóðafyrirtæki, eru að stíga fram og hætta starfsemi sinni í Rússlandi í mótmælaskyni, jafnvel fyrirtæki sem þessar efnahagsþvinganir sem settar hafa verið á, þó að þær séu miklar, beinast raunverulega ekki að. Þetta eru bara aðilar sem treysta á hinn frjálsa markað, treysta á lýðræðið, treysta á mannréttindi, treysta á að geta flutt sína vöru, standa fyrir það að ekki sé verið að vaða með yfirgangi yfir frjálsa og fullvalda þjóð sem Úkraína er. Þetta finnst mér sögulegt og jákvætt og ánægjulegt að tilheyra hópi vestrænna þjóða þar sem einstaklingar og fyrirtæki hafa verið að gera sitt án þess að vera neydd til þess eða beðin sérstaklega um það. Þar má nefna fyrirtæki eins og Apple, Samsung, IKEA og flutningafyrirtækið Mærsk í Danmörku sem ég held að sé eitt stærsta flutningafyrirtæki í heimi. Mærsk sagði: Við erum tilbúin til að flytja lyf og nauðsynjar en annað erum við ekki tilbúin til að flytja til Rússlands. Þetta eru stórar ákvarðanir og hafa vonandi þau áhrif að yfirvöld í Rússlandi hugsi sig tvisvar um. Því miður virðist fátt benda til þess að sú umhugsunin sé a.m.k. hafin af einhverri alvöru. En við höldum að sjálfsögðu í vonina að það verði hægt að leiða menn að samningaborðinu.

Þegar við horfum til varna hér á landi höfum við verið með loftrýmisgæslu vinaþjóða hér sem Íslendingum eru eflaust vel kunnug. Portúgalir eru að sinna þeirri loftrýmisgæslu í dag og mér skilst að þeirra tími hér nái til enda mánaðarins. Ég velti fyrir mér hvort ástandið sem upp er komið í öryggismálum í Evrópu kalli á aukna viðveru í Keflavík og vil beina spurningu minni til hæstv. utanríkisráðherra varðandi það sérstaklega, hvort eitthvað slíkt sé á döfinni. Við höfum heyrt að varnir NATO beinast fyrst og fremst að þeim ríkjum sem eru næst átakasvæðunum en við vitum líka að lega landsins er hernaðarlega mikilvæg. Við vitum einnig að við viljum tryggja varnir okkar og sýna, ásamt vinaþjóðum og öðrum þjóðum í NATO, að hér séu virkar varnir til staðar. Því beini ég því til ráðherrans, ef hún hefur tök á að koma aðeins inn á það.

Það er af mörgu að taka í skýrslunni. Eitt af því sem ég myndi vilja fá ítarlegri umfjöllun um er þetta mikla vísindasamstarf sem við eigum við aðrar þjóðir á mjög breiðum grundvelli. Við erum í mjög þéttu vísindastarfi um allan heim og þar höfum við mikið fram að færa, tel ég, á mjög mörgum sviðum. Okkur tókst vel að takast á við Covid miðað við margar aðrar þjóðir. Þar eigum við gríðarlega öflugt fólk á sviði vísinda sem aðstoðaði land og þjóð í þeim hremmingum. Nú þarf að fara að velta fyrir sér hvernig við komum til með að efla samstarf á milli landa til að vera klár ef og þegar annar heimsfaraldur skellur á. Það er ekki ólíklegt að við höfum margt fram að færa í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti, fagna ég því sérstaklega að við séum að taka hér utanríkismál til umræðu og málaflokkurinn sé að fá meiri og betri umræðu í samfélaginu að auki. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur, snertir alla þætti daglegs lífs á Íslandi og það er með lotningu sem maður horfir til þess hvað okkur hefur tekist vel upp frá því að við fengum sjálfstæði okkar að halda úti öflugri utanríkisþjónustu, vera í virkum samskiptum við vinaþjóðir okkar og bandalög, bæði á sviði öryggismála en ekki síst á sviði viðskipta. Það verður áhugavert að sjá hvort okkur takist ekki að efla utanríkismálin og veita utanríkismálum þann sess sem málaflokkurinn á skilið á þingi og í samfélaginu.