152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Evu Dögg Davíðsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu. Varðandi fyrstu spurninguna er einfalda svarið það að ráðherra gerir auðvitað ekkert einn. Til að tryggja sjálfbæra framtíð þurfa allir að leggjast á eitt, almenningur, atvinnulífið og stjórnvöld, og við sem störfum hér á Alþingi. Ég tel mikilvægt að við gætum að því að nýta okkar endurnýjanlegu auðlindir á ábyrgan hátt og gætum að jafnvægi á milli nýtingar og verndar, líkt og hugmyndin að baki rammaáætlun gengur út á. Ég bind miklar vonir við að Alþingi nái að afgreiða það mál í vor. Pólitísk sýn okkar í orkumálum birtist m.a. í stjórnarsáttmála hvers tíma en við höfum einnig sett okkur orkustefnu sem er okkur leiðarljós í umræðunni. Stefna ríkisstjórnarinnar er því skýr.

Varðandi aðra spurninguna þá eru orkuskiptin mikilvægur þáttur í því að ná þeim metnaðarfullu loftslagsmarkmiðum sem við höfum sett okkur. Án orkuskipta verður ómögulegt fyrir Ísland að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Endurheimt votlendis, landgræðsla, skógrækt og kolefnisförgunarverkefni eins og Carbfix eru áhersluatriði Íslands þegar kemur að bindingu kolefnis. Við eigum mikla möguleika á því að ná árangri á þessum sviðum, enda erum við rík af hugsjónafólki sem, með stuðningi íslensks atvinnulífs og stjórnvalda, getur lyft grettistaki.

Varðandi þriðju spurninguna þá hafa stjórnvöld sett sér markmið í loftslagsmálum sem kalla á orkuskipti, bæði í samgöngum á landi, varðandi skipaflotann og í flugsamgöngum. Ljóst er að við það að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti náum við miklum samdrætti í losun CO2. Í dag er staðan sú að öll lönd í Evrópu leita ljósum logum að orku til að keyra í gegn sín orkuskipti. Vandinn er að þau hafa fæst tök á því að afla þeirrar orku með eigin auðlindum. Þess vegna hafa margir erlendir aðilar rennt hýru auga til Íslands í þeim tilgangi að fá aðgang að auðlindum okkar til að flytja þær út og nýta í orkuskipti erlendis. Í mínum huga er ljóst að það er í algerum forgangi að ef við ákveðum að fara í frekari orkuöflun og nýta til þess íslenskar auðlindir þá verðum við að stuðla að því að þær nýtist til okkar eigin orkuskipta. Aðeins þannig náum við markmiðum okkar í loftslagsmálum. Aðeins þannig verður þess virði að ráðast í orkuöflunarframkvæmdir og aðeins þannig getum við orðið sjálfum okkur nóg. Við þurfum að nýta auðlindir okkar skynsamlega og eitt af því sem ég hef gert síðan ég kom í ráðuneytið er að setja fram frumvarp til að flýta ferli aflaukningar virkjana og jafnframt hefur aðgengi og stuðningur vegna varmadælna verið bætt í nýju frumvarpi. Orkusjóður hefur verið styrktur verulega og fer tæpur milljarður í orkuskiptaverkefni strax á þessu ári og Orkustofnun hefur sömuleiðis verið styrkt. Við viljum anna innlendri eftirspurn og henni verður aðeins mætt með framboði. Að öðrum kosti þurfum við að flytja inn grænt eldsneyti eða notast áfram við jarðefnaeldsneyti. Þróun síðustu vikna á alþjóðavettvangi ætti að sýna okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að standa á eigin fótum í orkumálum eins og hv. þingmaður vísaði sérstaklega til.

Varðandi spurningu fjögur þá er það að segja að ef við einsetjum okkur að horfa á heildarmyndina, gætum að hinu mikilvæga jafnvægi á milli verndar og nýtingar, berum áfram virðingu fyrir náttúrunni, leggjum áherslu á grænar lausnir og tækniframfarir og stuðlum að opinni og málefnalegri umræðu um orkuskipti, loftslagsmál og græn tækifæri, getum við náð samfélagslegri sátt um nýjar virkjanir í þágu orkuskipta. Orkuskiptin eru loftslagsmál og við erum öll sammála um að við viljum ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Til þess þarf aðgerðir.

Varðandi fimmtu spurninguna þá er það mikilvægt að íslenskt samfélag leggi áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt þurfum við að vera viðbúin þeirri vá sem stafar af áhrifum loftslagsbreytinga og afleiðingum þeirra. Framtíðarsýn okkar er sú að íslenskt samfélag og lífríki búi að viðnámsþrótti gagnvart loftslagsvá og að aðlögun að loftslagsbreytingum sé fastur þáttur í áætlunum og starfsemi hins opinbera, stofnana og fyrirtækja og þekkt viðfangsefni meðal félagasamtaka og almennings. Aðlögun á að vera hluti af ákvarðanatöku stjórnvalda og innan viðeigandi geira og atvinnugreina svo að greiningar og ákvarðanir taki til loftslagsáhættu og afleiðinga hennar. Í þeirri vinnu byggjum við á bestu vísindalegu þekkingu sem völ er á og vöktun og rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á samfélag og náttúru. Áhættugreiningar eru mikilvægar, bæði varðandi náttúruvá en einnig hvað varðar fjárhagsleg og þjóðhagsleg áhrif. Við leggjum mikla áherslu á þátttöku allra viðeigandi hagaðila og almennings ásamt alþjóðlegu samstarfi. Samtalið bæði við almenning og atvinnulíf mun skila okkur miklu. Þótt allar okkar áætlanir í loftslagsmálum verði að veruleika er ljóst að engu að síður verða afleiðingar af loftslagsbreytingum sem við hér á Íslandi munum finna fyrir. Þurrkadögum kann að fjölga sem leiðir af sér tíðari gróðurelda og úrkomuákefð eykst sem þýðir að flóðahætta eykst. Víða verður sjávarborðshækkun, rúmmál jökla mun minnka, sífreri mun bráðna og súrnun og hlýnun sjávar mun leiða af sér breytingar á lífríki sjávar.

Virðulegi forseti. Við þurfum að aðlaga okkur og búa okkur undir breytingar.