152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[19:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni og segja að ég hef sömu trú á að þetta sé á leiðinni í mun betri farveg. Það er alveg í samræmi við það sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á hér. Ég ítreka að það verðmætasta sem við eigum í heilbrigðisþjónustu er öryggiskennd beggja vegna, þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem þiggja þjónustuna.

Það er mjög góð spurning sem hv. þingmaður kemur hér með. Hvað erum við í raun og veru að gera með þessu frumvarpi? Það er ekki verið að breyta skránni sem slíkri en það er verið að lögfesta hana. Það er von að spurt sé: Af hverju tók embætti landlæknis þetta ekki bara að sér? Þetta var unnið þannig að til þess að embættið geti borið ábyrgð á skránni þarf að setja þessa lagastoð. Það kemur fram, eins og hv. þingmaður benti á. Þar sem ekki vannst tími til að klára málið með þeim hætti þá var þessi leið farin, að reka skimunarskrá sem miðlæga heilbrigðisskrá. Embætti landlæknis afhendir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skimunarskrána til notkunar að höfðu samráði við Persónuvernd. Þessi tímabundna ráðstöfun var rekin sem sértækt sjúkraskrárkerfi sem eingöngu snýr að krabbameinsskimunum. Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gerðu með sér samkomulag þar sem embættið tók að sér hýsingu, rekstur, þróun og þjónustu við skrána. Samkvæmt þessu samkomulagi tók embættið að sér að reka skimunarskrána og halda henni starfhæfri líkt og verið hafði hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Þetta er því sambærilegt fyrirkomulag. Embættið tók einnig að sér að sjá um nauðsynlegar endurbætur og breytingar í samræmi við þarfir heilsugæslunnar, (Forseti hringir.) samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana og annarra framkvæmdaraðila.