152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari þingsályktunartillögu. Það sem í henni stendur er gleðiefni, þ.e. að verið sé að reyna að nálgast þennan mikilvæga málaflokk af festu og alvöru og láta af því sundurleysi sem hefur einkennt þetta allt. Á sama tíma bregður mér svolítið þegar ég les niðurlag tillögunnar þar sem talað er um að ekki sé búist við að tillagan ein og sér leiði til aukins kostnaðar. Ég á erfitt með að ná utan um það að aukning á þjónustuúrræðum leiði ekki til aukins kostnaðar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra nefnir hér að við getum ekki verið að hrúga öllum inn á hjúkrunarheimili og við vitum það svo sem. Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi líka að við ættum við vanda að glíma inni á Landspítala þar sem þar lægju einstaklingar sem hægt væri að þjónusta á öðrum stöðum, en þeir þyrftu samt á einhvers konar hjúkrunarþjónustu að halda. Þá leiðir maður hugann að uppbyggingu hjúkrunarheimila sem er ódýrara úrræði en að vista fólk á spítala. Ég held að við sjáum sparnað í því að fjárfesta í hjúkrunarheimilum, a.m.k. í einhvern tíma.

Ég vil nefna að skrifað var undir samning um hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ 2019. Það hefur ekki komist á dagskrá að byggja það enn. Það er eins og Framkvæmdasýslan geti búið til ágreining um eitt og annað til að tefja framkvæmdir en vonandi förum við að sjá út úr því. Ég vil líka benda á hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði af því að óvænt urðu tilboð svo dýr að ekki var hægt að ganga að þeim. Það liggur fyrir fyrirliggjandi þörf um allt land fyrir hjúkrunarheimili. Ég sé ekki að við getum hlaupið frá því verkefni þó svo að við viljum bæta við fleiri úrræðum sem munu þá gagnast okkur til framtíðar, og við eigum auðvitað bara að vera vakandi fyrir því.

Eins og hér hefur verið nefnt eru eldri borgarar ekki allir eins í laginu. Við erum með sprelllifandi rokkara 67 ára, við sáum einn hér í pontu áðan sem ætlar ekkert að slá af. Það er mýgrútur af svoleiðis fólki sem er ekkert að dansa við harmonikkutónlist, það er bara enn í rokkinu. Þetta fólk ætlar að hafa gaman og við eigum að reyna að skapa þannig aðstæður að þannig geti fólk haft það sem lengst, að það geti farið á böll og dansað og verið í góðri þjálfun. Þá komum við inn á þær forvirku aðgerðir sem hægt er að fara í. Ég vil nefna sem dæmi Janusarverkefnið sem ég held að við þekkjum öll sem Reykjanesbær, eitt blankasta sveitarfélaga á Íslandi á sínum tíma, tók til sín og hefur verið að bjóða eldri borgurum þar upp á. Það hefur gengið alveg rosalega vel. Fólk er mjög ánægt með að sveitarfélagið skuli standa að slíku verkefni og bjóða upp á þennan möguleika og þetta hefur hjálpað fullt af fólki, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Það að verða hraustari líkamlega breytir andlegri líðan. Það eru úrræði sem við getum í framhaldinu sinnt og unnið með sem skipta eldri borgara, sem eru 67 plús, miklu máli. En grunnurinn þarf að vera til staðar.

Við ræddum áðan heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og það þarf bara að fara í átak. Átak kostar peninga. Það þarf að styrkja grunnþjónustuna um allt land, algerlega, þannig að fólk geti leitað þangað. Á sama tíma, eins og talað hefur verið um, erum við með alls konar önnur úrræði. Við erum með þjónustu í heimahúsum; það eru tveir aðilar sem sinna því, bæði ríki og sveitarfélög. Ríkið er með heimahjúkrunina en sveitarfélögin með félagslegu heimaþjónustuna. Svo rífast þessar einingar um hvor eigi að gera hvað. Nei, þú getur farið í heimsókn þarna af því að það þarf ekki að gefa viðkomandi lyf o.s.frv. Í Reykjanesbæ ákváðum við að setjast niður með Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fara yfir þessi mál til að þessi gráu svæði yrðu ekki til að skapa þjónustuskort. Niðurstaðan úr því varð ekki sú að sveitarfélagið græddi heldur lagðist aukinn kostnaður á sveitarfélagið. En við tókum það á okkur af því að okkur þótti eðlilegt og rétt að fólk fengi þá þjónustu sem það ætti rétt á. Við þurfum að fækka þessum gráu svæðum sem eru til staðar.

Hér er búið að nefna einmanaleika. Ég vil líka nefna lyfjanotkun sem er mikil á meðal eldri borgara. Fólk glímir við kvíða og þunglyndi, er hrætt við að vera eitt og þá er því bara gefið lyf. Þarna þarf að grípa inn í. Við vitum líka, sem er kannski eitthvað sem þarf að huga að, að áfengisneysla eldri borgara hefur verið að aukast. Allt þetta býr til áskoranir sem við þurfum að vinna með í framhaldinu. Þetta er risavaxið verkefni.

Hæstv. heilbrigðisráðherra minntist á að við gætum ekki alltaf verið að setja peninga í hjúkrunarheimilin og að við værum að glíma við þetta í hverjum fjárlögum. Ríkið bjó til sértekjur inn í þennan málaflokk í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra. Ríkið var að búa sér til alls konar sértekjur, Atvinnuleysistryggingasjóð, veggjald og ég veit ekki hvað, sem nú er búið að taka inn í ríkissjóð og svo þarf að útdeila þessu á hverju ári. Framkvæmdasjóður aldraðra, sem átti að vera til að framkvæma, hefur ekkert endilega verið nýttur í framkvæmdir. Hann hefur oft verið nýttur í rekstur. Hann heitir ekki Rekstrarsjóður aldraðra heldur Framkvæmdasjóður aldraðra. Það hefur jafnvel verið þannig að einungis helmingurinn af sjóðnum hefur verið nýttur í uppbyggingu þjónustuúrræða fyrir eldri borgara. Það hefur aðeins orðið bragarbót á þessu hin síðustu ár. En þarna spyr maður: Hvers vegna er verið að leggja skatta á fólk og nota þá svo í annað? Þetta eru sértekjur sem eiga að fara í tiltekið málefni en svo er verið að nota þær í annað. Ég vil að við hugum að því og skoðum hvernig þessu öllu er farið.

Svo eru það þessi búsetuúrræði sem nefnd hafa verið hér. Það voru mistök þegar við lögðum elliheimilin niður. Við vorum hér út um allt land með svokölluð elliheimili. Þegar fólk missti maka sinn fór það í slík búsetuúrræði þar sem eldri borgarar voru, fengu góða þjónustu en áttu sinn bíl og keyrðu bara um og gerðu allt sem þá langaði til. En svo var þetta allt tekið undir hjúkrunarheimili. Og staðan er nánast þannig að þú ert að verða dauðvona þegar þú kemst inn á hjúkrunarheimili. Þannig er staðan í dag og þá sitjum við eftir með stórt gat, þá sem treysta sér ekki til að vera einir en þurfa að vera innan um fólk til að forðast einmanaleika og til að geta stólað á annað fólk. Þarna held ég að við getum brett upp ermar.

Orð eru til alls fyrst. Ég er ánægður með það sem stendur á þessu blaði. Ég vænti þess og vona að við náum að koma þessu öllu í gegn.