152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

laun forstjóra ríkisfyrirtækja.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er stórmál og varðar grundvallaratriði eins og hver launamunurinn í samfélaginu á að vera og hvernig við viljum haga ákvörðunum um launamál æðstu stjórnenda hjá ríkinu. Ég vil minna á það hér að á síðasta kjörtímabili var sú ákvörðun tekin af ríkisstjórninni að leggja niður kjararáð, sem hafði verið mjög umdeilt fyrirbæri, og taka þá stefnumótandi ákvörðun að laun æðstu embættismanna, þar með talið okkar hv. þingmanna, verði ákvörðuð út frá launaþróun á opinberum markaði. Þannig væri tryggt að launaþróun okkar og annarra æðstu embættismanna yrði aldrei leiðandi, sem mér fannst mjög mikilvæg ákvörðun.

Hvað varðar forstjóra opinberra fyrirtækja þá heyra þeir og þau ekki undir þessi lög. Hæstv. fjármálaráðherra, sem fer með hlut ríkisins í þessum fyrirtækjum, hefur hins vegar kallað eftir því hvaða launabreytingar þetta eru, hvort þær stangist á við eða séu úr takti við almenna launaþróun sem og hvernig ákvarðanir eru teknar um þessar launahækkanir. Hv. þingmaður vísar hér til ábyrgðar stjórna umræddra fyrirtækja og ég held að það sé mikilvægt að við förum ofan í það því að samkvæmt eigendastefnu ríkisins er lögð áhersla á að þessi laun séu aldrei leiðandi; að þau séu það sem heitir samkeppnishæf, en þau séu ekki leiðandi í launaþróun.

Ég vil bara segja að lokum hvað varðar yfirmenn, hvort sem er hjá ríki eða á almennum markaði, að það er gríðarlega mikilvægt að þetta fólk sýni ábyrgð gagnvart þeim kjaraviðræðum sem eru fram undan. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að það er ekki bara á ábyrgð almenns launafólks að sátt geti náðst um kjarasamninga. Það er mun heldur ábyrgð þeirra sem leiða, hvort sem er á almennum eða opinberum markaði.