152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það dugar ekki að byggja, það þarf líka manna. Það er einmitt lykilatriði sem mér finnst algerlega skautað fram hjá í þessari tillögu að mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlanirnar. Mig langar aðeins að velta því upp vegna þess að hv. þingmaður er fulltrúi flokks sem hefur sett málefni tekjulágra, málefni fátæks fólks á dagskrá; það verður fjölgun í hópi aldraðra á næstu áratugum og fólkið sem verður komið í þann hóp árið 2040 — ég myndi t.d. skjóta á að stór hluti af heilbrigðisstarfsfólki dagsins í dag sé í þeim hópi. Við vitum að kynbundinn launamunur sem fylgir fólki í gegnum starfsævina magnar kynbundinn mun á lífeyrisréttindum þegar það er komið á efri ár, þannig að með því að halda kvennastéttunum, sem halda heilbrigðiskerfinu gangandi, niðri í launum er verið að búa til fátækt aldrað fólk framtíðarinnar. Þetta er eitthvað sem höfundur tillögunnar þykir ekki vera vettvangur til að fara yfir í þessu plaggi en þetta er eitt af því sem við getum leyst og þá erum við að slá tvær flugur í einu höggi. Við erum í fyrsta lagi í alvöru að standa að því að setja fólkið í forgrunn þannig að við tryggjum mönnun heilbrigðisþjónustunnar í dag en við erum líka að draga úr neikvæðum heilsufarsafleiðingum fátæktar aldraðs fólks í framtíðinni. Mig langar bara að velta því upp við þingmanninn hversu fráleitt það er að ekki sé tekið á þessum atriðum akkúrat hér.