152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna. Mig langaði aðeins forvitnast meira um stjórnina, nokkur atriði því tengt. Mig langaði að vita hver rökin væru fyrir því að fulltrúar starfsfólks væru ekki með atkvæðisrétt. Mig langaði einnig að vita hvernig hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að skipun í þessa stjórn fari fram. Er það eingöngu ráðherra sem velur hverjir það eru eða er þetta hugsað þannig að leitað sé einhverra tillagna um aðila í stjórnina? Svo er eitt sem ég hjó líka eftir varðandi þetta og það er samspilið á milli forstjóra og stjórnar. Nú er það í sumum tilvikum þannig að stjórnir t.d. ráða forstjóra, en í þessu tilfelli er forstjóri skipaður. Er hæstv. ráðherra ekkert hræddur um að upp geti komið svolítið mikil átök á milli þessara tveggja hópa? Hvernig er það í rauninni hugsað? Hefur stjórnin eitthvert vald yfir forstjóranum eða hvernig er það allt saman hugsað, þessi samskipti og samspil milli stjórnar og forstjóra? Fullt af spurningum, vonandi kemst eitthvað af þeim að.