152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[19:17]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni yfir því að við skulum vera að fjalla um frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem lagt er til að skipuð verði sérstök stjórn yfir Landspítala Íslands. Þrátt fyrir það sem kom fram áðan þá er þetta nú gamalt áhugamál margra, ekki bara í þessum þingsal, og hefur margsinnis verið ritað og rætt um það, m.a. af þeim sem hér stendur, og er hægt að fara nokkuð mörg ár aftur í tímann. Mér er hins vegar rétt og skylt að taka hér til máls vegna þess að það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég hygg að nauðsynlegt sé að taka til skoðunar. Við getum kallað það ágalla að einhverju leyti því að það er alveg ljóst að stjórnum fyrirtækja eða stofnana er ætlað að veita stjórnendum og starfsmönnum aðhald en um leið hvatningu og tryggja þannig að skipulag viðkomandi einingar, félags, stofnunar, sé í réttu og góðu horfi. Því er mikilvægt að skipað sé til stjórnar með þeim hætti að þar veljist aðilar sem hafa þekkingu á viðfangsefninu en að einnig sé hæfileg breidd meðal stjórnmálamanna. Ég hef áhyggjur af því að þegar kemur að ákvæðum þessa frumvarps um þau skilyrði sem stjórnarmenn þurfa að uppfylla sé of langt gengið og sú hætta sé fyrir hendi að ýmsum hæfum einstaklingum, sem væri eftirsóknarvert að sætu í stjórn Landspítalans verði gert það ókleift vegna þeirra krafna sem þar eru settar fram og ég geng út frá því að hv. velferðarnefnd muni taka þetta til skoðunar.

En þetta er ekki aðalatriðið. Það eru önnur atriði í frumvarpinu sem ég hygg að þurfi að skoða nánar og þá er það fyrst samspil stjórnar spítalans og forstjóra. Samkvæmt frumvarpinu hefur stjórnin ekkert boðvald yfir forstjóranum. Slíkt mun draga úr gildi stjórnarinnar og í raun verður ekki annað séð en að það gangi gegn þeim markmiðum sem við erum að reyna að ná fram með því að skipa Landspítalanum, þessari mikilvægu stofnun og kannski hugsanlega mikilvægustu stofnun okkar Íslendinga, sérstaka sjálfstæða stjórn. Þetta er nauðsynlegt að velferðarnefnd og hæstv. heilbrigðisráðherra skoði sérstaklega nú í þinglegri meðferð. Það eru rök fyrir því að ráðherra skipi eingöngu stjórn en að það verði hlutverk stjórnarinnar að ráða forstjóra eða framkvæmdastjóra. Við getum auðvitað sótt fyrirmynd til hlutafélagalaga en við getum líka sótt fyrirmynd til ríkisstofnana að þessu leyti þótt líka sé sá háttur hafður á að ráðherra skipi forstjóra sérstaklega en ekki stjórn viðkomandi stofnunar og ég hygg t.d. að þannig sé það í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og hugsanlega víðar, en hitt er líka til. Ég hygg að það skipti verulega miklu máli að það sé stjórn spítalans sem á að bera ábyrgð á rekstri og skipulagi Landspítalans gagnvart ráðherra og gagnvart þinginu, sem hafi þá það umboð og þá skyldu að ráða til þess forstjóra sem beri ábyrgð gagnvart stjórn.

Þegar við hins vegar ræðum um þetta frumvarp ættum við einnig að huga að því, eða ég vil a.m.k. vekja athygli á því, að fullnægjandi áhættustjórn og innra eftirlit er ein af grunnforsendum þess að stjórn félags eða stofnunar geti sinnt hlutverki sínu og m.a. tryggt að farið sé að lögum. Það er ljóst og það er reynsla okkar að áhættustjórnun og innra eftirlit eykur líkur á því að starfsemin og reksturinn og þjónustan sem veitt er sé í því horfi sem við gerum kröfu um að hún sé. Ég hygg að því sé nauðsynlegt við meðferð þessa máls að horft sé til þess hvort ekki sé ástæða til að skrifa inn í frumvarpið ákvæði um að setja skuli á innra eftirlit með Landspítalanum með svipuðum hætti og viðgengust a.m.k. hjá öllum stærstu hlutafélögum landsins. Guð forði okkur frá því að stíga það ógæfuskref, eins og ég heyrði hér í þingsal áðan, að gera Landspítalann að opinberu hlutafélagi sem væri leið til ófarnaðar, en látum það liggja milli hluta. En innra eftirlit, virkt innra eftirlit, skiptir verulega miklu máli fyrir stjórn spítalans, fyrir forstjóra spítalans og fyrir helstu stjórnendur. Ég hygg að það gætu verið rök fyrir því að færa það með skýrum hætti inn í lagatextann þegar við tökumst á við þetta frumvarp.

Önnur athugasemd sem ég hef er hvernig menn ætla að skipa stjórn þegar kemur að fulltrúum starfsmanna. Það gengur ekki upp í mínum huga að tveir fulltrúar starfsmanna sitji í stjórninni, séu kallaðar stjórnarmenn en séu án atkvæðisréttar. Slíkir aðilar eru áheyrnarfulltrúar og geta aldrei talist stjórnarmenn í hefðbundnum skilningi. Ef menn telja nauðsynlegt að fulltrúi starfsmanna sitji í stjórn spítalans, og við getum rætt kosti og galla þess, þá verða menn að stíga skrefið til fulls og segja: Þið eruð jafngildir stjórnarmenn og aðrir og hafið ekki bara málfrelsi og tillögurétt heldur líka fullan atkvæðisrétt. Annars getur skapast sú staða að tveir stjórnarmanna verði fjarverandi, þrír stjórnarmenn sitji fund, þar af tveir fulltrúar starfsmanna, og þá verði ákvörðun tekin á stjórnarfundi með hugsanlega tveimur atkvæðum. Það gengur ekki. Það eru kostir og gallar við að starfsmenn sitji í stjórn en ef menn taka þá ákvörðun verður ekki hjá því komist að veita þeim sama sess, sama rétt og öðrum stjórnarmönnum þannig að þeir sitji sem fullgildir stjórnmálamenn en ekki eins og áheyrnarfulltrúar sem þeir annars væru. Ef menn vilja ekki veita starfsmönnum, fulltrúum starfsmanna, atkvæðisrétt þá skulu menn ganga hreint til verka og segja að starfsmenn Landspítalans hafi tvo áheyrnarfulltrúa sem þeir þá sannarlega eru.

Einnig er óljóst í frumvarpinu með hvaða hætti skuli standa að vali þessara fulltrúa starfsmanna. Það kemur auðvitað ekki til greina að fulltrúar starfsmanna séu yfirmenn spítalans eða í framkvæmdastjórn spítalans eða eitthvað slíkt. Það verður að vera gert með öðrum hætti. Ég hef enga sérstaka lausn á því hvernig menn ætla sér að gera það. En það er hins vegar viðfangsefni sem ég held að menn þurfi að leysa úr til að forðast vandamál sem gætu komið upp á síðari stigum.

Herra forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég ætla að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég mun sem fulltrúi í velferðarnefnd gera mitt til þess að það nái fram að ganga og ég vonast til að um það verði breið samstaða. Ég hef um leið talið mér skylt og rétt að gera grein fyrir þeim vanköntum sem ég sé á frumvarpinu og mun halda þeim til haga í þeirri vinnu sem fram undan er.