152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú er endóvika, en með henni vill baráttufólk vekja athygli á endómetríósu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt frá vinnu við bætta þjónustu við einstaklinga með sjúkdóminn. Það er jákvætt, en mig langar að biðja hann að drífa þessa vinnu áfram. Stór hópur kvenna fær ekki fullnægjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þær eru sárþjáðar, bæði líkamlega og andlega, og geta ekki beðið lengur eftir vangaveltum í stjórnkerfinu og í starfshópum. Ég bind vonir við að hæstv. ráðherra gjörbreyti þessari vondu stöðu og að úrbætur sem hann hefur lofað verði að umbyltingu. Það dugar ekkert minna til.

Og fyrst ég er byrjuð að ræða heilbrigðismálin, þar sem verkefnalistinn er langur, þá er staðan sú að hundruð eða þúsundir landsmanna bíða eftir skurðaðgerð á augasteini, einfaldri aðgerð sem bætir lífsgæði svo um munar. Það sama á við um liðskiptaaðgerðir. Við vitum að verið er að skoða heilbrigðisþjónustuna og kerfið og við vitum að verið er að skilgreina hlutverk Landspítalans. En lausnin á þessum vanda er einföld: Það þarf að bjóða þessar aðgerðir út ekki seinna en í gær. Það hefur verið gert áður með góðum árangri og það verður niðurstaðan núna ef vilji stendur til þess að Íslendingar hætti að þurfa að ferðast til útlanda til að fá lífsbætandi heilbrigðisþjónustu. Ef við látum ekki verkin tala í því að þjónusta við sjúklinga sé í forgangi erum við að láta gamaldagshugsun standa í vegi fyrir heilbrigðiskerfi sem virkar.