152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef við lítum á 5. blaðsíðuna í drögunum í greinargerðinni, í neðstu málsgrein, stendur, talandi um hvaða hlutverki stjórnin á að gegna og hvernig hún ætti að vera skipuð, að sem dæmi megi nefna að nú standi yfir innleiðing á nýju fjármögnunarkerfi fyrir spítalann, framleiðslutengdri fjármögnun. Má því ætla að fagþekking á slíkri fjármögnun sé mikilvæg fyrstu árin innan stjórnarinnar, en þegar innleiðingu er að mestu lokið, þ.e. á næstu einum til tveimur árum, verði fremur þörf á sérþekkingu á öðrum sviðum sem þá verði í deiglunni. Mögulega kann það að vera að þessi framleiðslutengda fjármögnun sé það sem mun bjarga bráðaþjónustunni sem við vitum að var í lamasessi vel fyrir Covid. Við vitum að það var neyðarástand á gjörgæslunni áður en heimsfaraldur skall á en ég finn engin rök fyrir því samt í þessari greinargerð að framleiðslutengd fjármögnun sé í raun það sem standi til að gera til að ná því markmiði sem ég vísa í hér að framan. Þess vegna velti ég fyrir mér: Eflaust er það mjög gott að Landspítalinn fari, án þess að ég viti það, að skipta yfir í þetta kerfi. Kannski er það bara nákvæmlega það sem þarf. En við vitum samt að undirliggjandi fjárskortur á spítalanum í fleiri ár án þess að eitthvað hafi verið gert í því að koma til móts við þann hallarekstur er að stóru leyti orsök þess, og auðvitað þetta gríðarlega álag sem hefur verið á heilbrigðisstarfsfólk, að ástandið er eins og það er. Mér finnst það því skjóta skökku við að þeir tveir aðilar sem hafa kannski besta innsýn inn í hvernig bæta eigi bráðaþjónustuna, hvernig bæta eigi þjónustu spítalans, þ.e. starfsfólkið, hafi ekki einu sinni atkvæðisrétt í stjórninni. Er ekki eitthvað skakkt við það að fólk (Forseti hringir.) sem hefur kannski bestu innsýnina í það hvernig eigi að bæta þjónustuna fái ekki einu sinni að greiða atkvæði um hvernig eigi að gera það?