152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Rétt er að benda hæstv. heilbrigðisráðherra á það að leiðin áfram í þessu máli er þegar fundin. Við höfum sammælst um það, Píratar og Flokkur fólksins, að þér fjarstöddum, í samtali að leiðin áfram er sumsé að tálga horn og klaufir af þessu frumvarpi, að gera það þannig að við getum fellt okkur við það hér í þessum sal, að draga úr forræðishyggjunni en láta megintilganginn, þ.e. að sporna við fíkn barna, halda áfram með öflugri vitundarvakningu sem höfðar til ungs fólks og bendir á að neysla efna af þessum toga er bæði hættuleg heilsu og kannski fyrst og fremst ekki töff, er hreint út sagt púkaleg. Sú þjóð sem lengst og mest varð fræg fyrir það að troða tóbaki undir efrivörina á sér, sem ég held að hafi verið Svíar — ég held að Íslendingar hafi fljótlega áttað sig á því, þótt margir hafi vanist á þetta, að það er hreint ekki til fegrunar ásjónu neins að troða einhverjum pokum undir vörina á sér. Það er hægt að gera mjög snjallar sjónvarpsauglýsingar sem höfða til ungs fólks á öllum aldri og sporna við þessari neyslu.

Mér er eiginlega ofboðið að sjá þessar sjoppur spretta upp úti um allan bæ. Það er bersýnilega þarna eitthvert trend sem hefur náð að blómstra. Í þessu samhengi held ég að við ættum líka í framhaldi af þessum hlutum að taka upp umræðu um lögleiðingu þeirra efna sem eru hér í mikilli dreifingu. Við erum með hættulegasta fíkniefnið selt í vínbúðinni (Forseti hringir.) og allt sem er bannað virkar, eins og bent var á, meira spennandi. Hvernig getum við náð (Forseti hringir.) utan um þessa hluti þannig að lýðheilsu Íslendinga verði ekki stefnt í frekari hættu?