152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:45]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið og góðar pælingar. Ég sjálf varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá að hæstv. heilbrigðisráðherra hafði dregið frumvarp sitt til baka. Þetta er klárlega heilbrigðismál sem mér finnst vert að við ræðum í þinginu og hefði viljað sjá stjórnarfrumvarp þess efnis. Ég gef mér líka að hann sé að reyna að skilgreina betur hvað sé neysluskammtur og ýmislegt svoleiðis sem ég ætla ekkert að tala um hér. Auðvitað myndi ég sem ungur stjórnmálamaður, frjálslyndur stjórnmálamaður, vilja ganga lengra. Þess vegna flutti ég þessa ræðu um þetta tiltekna frumvarp sem um ræðir í dag, af því að það gengur allt of langt og við erum að ganga allt of langt. Þar af leiðandi finnst mér við vera að fara í vitlausa átt. Við erum ekki að fara í átt að frjálslyndi og frelsi og umburðarlyndi sem mér finnst að ætti að vera markmiðið.