152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir ákaflega áhugaverða ræðu, það er margt þar sem hægt er að taka undir. Hann lýsti að mörgu leyti þeim áhyggjum sem ég hafði við lestur frumvarpsins. Ég hjó sérstaklega eftir umfjöllun þingmannsins um forvarnir og forvarnagildi þeirra reglna sem verið er að leggja til. Ef ég skil þetta rétt er lagt til í frumvarpinu að settar verði ansi strangar reglur um sölu, aldursmörk, merkingar og aðgengi, en í ofanálag á að fara út í það að banna einhverjar bragðtegundir af því að þær höfði til ákveðins hóps sem eru börn.

Í fyrsta lagi vakna náttúrlega allar þær spurningar sem tæpt hefur verið á hér í dag, varðandi það hvaða bragðtegundir höfði til barna, hvort það sé ekki smekksatriði líkt og hjá þeim sem eldri eru og annað slíkt. Mér finnst það bera vott um ákveðið ráðaleysi, hálfgerða örvæntingu, að ganga svona langt í þessum tillögum.

Mig langaði kannski frekar að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um það hvort hann telji, að gefnum öllum þeim reglum sem ekki virðist neinn ágreiningur um; varðandi aldursmörk, merkingar og önnur takmörk á sölu á þessum varningi, að það sem er umdeilt í þessu frumvarpi bæti einhverju við forvarnagildið, hvort eitthvert forvarnagildi sé fólgið í því eða hvort þetta sé það sem stundum er kallað falskt öryggi. Það er góður ásetningur þarna en spurningin er hvort þetta stefni að þeim markmiðum sem látið er í veðri vaka að stefnt sé að.