152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[21:31]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öll þessi andsvör. Það var eitthvað gott í þeim öllum. Við erum að ræða þessi mál og takast aðeins á um þau og ég held að það sé gott að við gerum það. Mig langar til að nota síðustu sekúndurnar til að lesa upp eitt annað í umsögn Barnaheilla sem mér finnst skipta máli:

„Mikilvægt er að halda vörð um þann góða árangur sem náðist hér á landi þegar dró verulega úr reykingum og tóbaks-/nikótínneyslu barna og ungmenna frá 10. áratugnum og fram eftir nýrri öld. Því miður hafa kannanir gefið til kynna, eins og áður var nefnt, að töluverður fjöldi barna, ánetjast nú nikótínvörum þar sem ekki hefur verið brugðist nægilega fljótt við að setja reglur um sölu slíkra vara. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að efla forvarnir til að vara við fíknihættu af nikótínvörum og slæmum heilsufarsafleiðingum af neyslu þeirra.“

Enn og aftur, þetta er í höndum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og kannski á þetta eftir að taka einhverjum breytingum til að milda þetta eitthvað og það verður bara spennandi að fylgjast með því. (Forseti hringir.)