152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Rússland fremur grimmilega stríðsglæpi í Úkraínu. Á því leikur ekki nokkur einasti vafi í mínum huga. Ég segi það aftur: Rússland fremur stríðsglæpi í Úkraínu. Ég hef lagt fram tillögu um að Ísland veiti 10 millj. kr. viðbótarframlag til Alþjóðlega sakamáladómstólsins vegna rannsóknar á stríðsglæpum Rússa. Við erum fámenn þjóð, en með þessum hætti getum við beitt rödd okkar í þágu almennings í Úkraínu. Að þessari tillögu standa 30 þingmenn úr öllum flokkum. Það er mikilvæg samstaða. Rannsókn á stríðsglæpum í Úkraínu er nú þegar hafin og saksóknari við dómstólinn hefur beðið aðildarríki dómstólsins um að styðja rannsóknina með fjárframlögum. Það hef ég lagt til að Ísland geri og ég vona innilega að það verði samþykkt hér á þingi. Við getum gert meira í þágu þessarar rannsóknar. Við getum farið að fordæmi Svía og boðið fólki sem hingað kemur frá Úkraínu að segja frá reynslu sinni og skrásett sögurnar. Þannig getum við aflað vitnisburða og sönnunargagna og stutt rannsóknina. Karim A.A. Khan, saksóknari við Alþjóðlega sakamáladómstólinn, hefur talað um hin augljósu sannindi að sé árásum vísvitandi beitt gegn almennum borgurum sé það glæpur. Ursula von der Layen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur nefnt sprengjuárásir á fæðingarheimili í Mariupol og við sjáum dæmi á hverjum einasta degi, því miður. Sakamálarannsóknin hefur þýðingu. Þeir sem fremja stríðsglæpi eiga að sæta refsiábyrgð af hálfu alþjóðasamfélagsins og í dag er t.d. enn verið að elta uppi þá sem frömdu brot í Júgóslavíu og Rúanda og dómar hafa fallið. Ísland er eitt 39 aðildarríkja sem báðu um þessa rannsókn upphaflega og þessi samstaða er án fordæma.

Forseti. Ég er stolt af Alþingi í dag. Ég vona innilega að tillaga mín verði samþykkt sem allra fyrst. Þessi stuðningur frá Alþingi Íslendinga skiptir Úkraínu máli.