152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

lengd þingfundar.

[12:19]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér hefur allt verið sagt að mínu mati sem máli skiptir í þessu og sjónarmiðin komið fram af beggja hálfu, minni hluta og meiri hluta. [Truflun vegna símtals.] — Hér er undarleg uppákoma. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil meina að við eigum að að leggja þessa umræðu niður og gera það sem hér hefur margoft verið mælt með að gera. Þetta snýst auðvitað um að ná hér taktinum saman. Taktleysi er orð sem lýsir okkur allt of vel. Væri það lúðrasveit sem byði upp á fjórskiptan takt öðrum megin í sveitinni en þrískiptan hinum megin þá myndu allir lækka í henni, hvort sem hún væri í útvarpi eða sjónvarpi. Forðumst slíkt taktleysi hér. Fundum um fyrirkomulagið, fundum um málin sem við ætlum að koma okkur saman um til loka þessa þingvetrar, eflum með okkur vinskap, eyðum fjandskap og verðum öðrum stofnunum í landinu til fyrirmyndar í vinnubrögðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)