152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð hér undir lokin. Mig langar að beina til hennar spurningu, mig langar að heyra aðeins frá henni hvað henni finnst um þá gagnrýni sem hefur komið fram hér í dag og hefur kannski verið fyrirferðarmest frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni. Hann hefur velt því fyrir sér hvort þetta frumvarp sé til þess fallið að bæta tjón sem varð út af takmörkunum, hvort sú leið sem hér er lagt upp með skili sér raunverulega til þeirra sem þurfa á hjálp að halda og hefur áhyggjur af því að þetta geti runnið til einhverra sem þegar hafa fengið önnur opinber úrræði. Þetta er sami málflutningur sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, en þó tók hún ekki alveg sömu sterku afstöðu og sagðist ekki vera með fyrirvara á þessu máli. Hún velti því þó fyrir sér hvort með þessari leið væri verið að, svo ég vitni orðrétt í hana, umbuna einhverjum sem þegar hefðu fengið styrki úr öðrum áttum. Svo sagði hún aftur í seinni ræðu að það væru ákveðnar áhyggjur af því að þetta frumvarp gæti falið það í sér að við værum að bæta upp tap til einhverra sem þegar hefðu fengið bætur í gegnum aðrar leiðir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað henni finnist um þennan málflutning og þessar hugmyndir sem hér koma fram um að í rauninni skilyrða listamannalaun, veitingu starfslauna, út frá því hvort fólk hafi fengið einhverja styrki eða bætur, eins og hér er sagt, á fyrri stigum heimsfaraldursins. Hvað finnst hæstv. ráðherra um þennan málflutning Sjálfstæðismanna?