152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:49]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra atriðið sem hv. þingmaður nefndi þá munum við að sjálfsögðu skoða það í ráðuneytinu. Það gæti verið tengt nýrri EES-gerð um persónuvernd í fjarskiptum sem leysa mun af hólmi gildandi tilskipun um persónuvernd í fjarskiptum. Upphaflega stóð til að hún væri með Kóðanum en vegna ýmissa vandkvæða samhliða Kóðatilskipuninni reyndist erfitt að klára hana. Hún mun því væntanlega koma síðar og gæti því svarað þessum dómi, en við munum skoða það betur.

Varðandi frumvarpið um rýni erlendra fjárfestinga þá sé ég ekki að neitt standi í vegi fyrir því að klára þetta frumvarp þó að það frestist. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki hætt við það frumvarp heldur ætlar að vanda vel til verka, enda er það verulega stórt mál sem þarf að vinna vandlega og ég býst við að það komi fram á næsta þingi. En frumvarpið sem hér er til umræðu er það mikilvægt fyrir framgang fjarskiptamála í landinu, þau tækifæri sem felast þar, og þjóðaröryggisgreinin, að ég tel mjög mikilvægt að það klárist á þessu þingi, enda fékk það líka mikla þinglega umræðu á síðasta þingi.