152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ef þessi spurning hefði komið hér upp í þingsal fyrir fimm árum síðan þá hefði ég sagt að þetta væri bara einfalt; það ætti bara að hætta fastri byggð í Grímsey og sjá til þess að ferjan færi mjög reglulega á sumrin svo að aðilar eins og ég gætu kannski farið og heimsótt þennan undurfallega stað. Þetta er einn af fáum stöðum á landinu sem ég hef ekki komið til. En eftir að ég settist á þing hef ég sérstaklega farið að hafa mikinn áhuga á norðurslóðamálum og þá hef ég algerlega sannfærst um að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, ekki bara út frá byggðamálum heldur bara út frá alþjóðamálum, að það sé byggð í Grímsey. Þess vegna held ég að þetta sé mjög áhugaverð spurning. Og miðað við þær lýsingar sem komu fram hjá fyrirspyrjanda þá mun ég velja mjög fallegt veður til að sigla út í Grímsey en vona jafnframt að það geti komið ný ferja fljótlega. Og þá vil ég ítreka mikilvægi þess að sú ferja þarf auðvitað að vera knúin áfram af grænum orkugjafa, því að það er jú það sem við þurfum að standa fyrir, sérstaklega í norðurslóðamálum, að siglingar um svæðið séu eins umhverfisvænar og kostur er.