152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[19:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið og skýra sýn á að það sé verið að innleiða betra upplýsingakerfi og rafræna og stafræna stjórnsýslu hjá Útlendingastofnun þó að það gerist ekki allt saman samtímis. Ég vil einnig þakka þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og vil hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja eftir og styðja við bakið á þessari innleiðingu og þeim framförum sem eiga sér stað hjá Útlendingastofnun að mér sýnist eiginlega bara þessa dagana, eftir því sem ég hef fylgst með á vefnum. Það hefur margt komið fram í umræðunni sem mælir með því og bendir til þess að það verði mikil einföldun og mikil framför í þjónustu við alla þá sem sækja til Útlendingastofnunar eftir því sem innleiðingin á sér stað. Svo komið sé inn á nokkur atriði þá hefur t.d. ekki alltaf verið einfalt að nýta þjónustu Útlendingastofnunar fyrir þá sem búa á landsbyggðinni. Stafræn vegferð bætir aðgengi alls staðar að af landinu jafnframt því að þá gætu leiðbeiningar orðið sniðnar að hverri umsókn fyrir sig, sem sagt gagnvirk þjónusta sem hentar hverjum einstaklingi og þar með væri hægt að uppfylla betur leiðbeiningarskyldu í einföldum málum og hafa meiri tíma fyrir flóknari málin. Hér hefur líka komið fram mikilvægi þess að umsækjendur sjálfir geti stjórnað upplýsingum og bætt við eða tekið út upplýsingar sem ekki eiga við. (Forseti hringir.) — Já, þetta var stuttur tími.