152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[19:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er svo sem ekki fyrirspurnatími en ég skal glaður skýra það aðeins út sem ég átti við vegna þess að ég tel að þetta sé mikilvægt. Ég á við það að ég er nýbúinn að fara yfir allar þær áætlanir sem við erum með, og það viðbótarfjármagn sem við höfum verið að fá á grundvelli þess, og við erum að fara að fjölga starfsmönnum. Við erum að fara að nýta betur lögreglumennina sem eru dreifðir hjá hinum ýmsu embættum með því mögulega að setja þá undir eina yfirstjórn í svona verkefnaflokki, og jafnvel mörgum öðrum verkefnaflokkum, þannig að yfirsýn haldist á landsvísu þó að lögreglumennirnir geti verið starfandi hjá hinum ýmsu embættum úti um land, það þarf engin breyting að verða á því, þannig að við höfum heildaryfirsýn yfir málaflokkana í öllum embættum á einum stað. Þetta eru svona skipulagsbreytingar sem við erum að hugsa um til að nýta betur mannskapinn og fá samhæfðari og sterkari vinnubrögð.

Eftir þá ræðu mína kemur hér upp hv. þingmaður og fullyrðir að ég sé að fara að fækka lögreglumönnum, bara beint í kjölfarið á ræðu minni, og að ég ætli að færa þetta allt til einhvers eins sýslumannsembættis (Forseti hringir.) úti á landi. Mér finnst full ástæða til þess að það sé rætt hér í þessum sal að við höldum okkur við málefnalega umræðu, virðulegur forseti. Það er slík umræða sem kemur okkur áfram. Ég er tilbúinn til að taka við gagnrýni og umræðu (Forseti hringir.) og að fólk hafi aðrar skoðanir en ég hef, en að leggja mér orð í munn og segja ósatt, (Forseti hringir.) það er það sem ég er að tala um að við þurfum að taka til umræðu.