152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið. Jú, auðvitað þurfum við að vera með en það sem ég óttast er hversu stórt þetta bákn verður. Hver skilur það? Er það er falskt öryggi? Hvernig eigum við að vita það? Við erum búin að búa til eitthvert risabákn, eiginlega öryggi innan í öryggi, og enginn skilur það nema einhverjir algjörir sérfræðingar. Þá óttast ég að við almenningur, sem eigum nógu erfitt með að fikta í sjónvarpinu okkar, fara á milli rása og finna réttu rásirnar eða öppin í símanum, lendum á vegg og áttum okkur ekki á því. Eins og ég benti á er þessi bók ótrúlega flókin og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á að Fjarskiptastofnun telur að ákveðnir aðilar þurfi hreinlega að kenna þeim, þeir þurfi hreinlega að læra á þetta. Þetta er orðið svo flókið og orðið svo mikið regluverk að ég sé ekki hvernig og hvenær við getum náð að virkja það þannig að það virki eins og það á að gera. Þegar við erum búin að ná á þann stað þá getur þetta blessaða kerfi sem við erum með allt í einu orðið úrelt vegna þess að þá erum við komin með eitthvað nýtt. Ég óttast að við séum alltaf skrefi eftir á í öryggismálum (Forseti hringir.) vegna þess að kerfin eru orðin það flókin.