152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

umhverfi fjölmiðla.

[16:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég ætla að taka aðeins upp þráðinn þar sem frá var horfið í máli hv. þm. Arnars Þórs Jónssonar og Eyjólfs Ármannssonar því að þeir viku hér að máli sem er ekki hægt að líta fram hjá ef við ætlum að ræða stöðu fjölmiðlamarkaðar á Íslandi yfir höfuð. Það er málfrelsi, tjáningarfrelsi á Íslandi. Tjáningarfrelsi hefur átt mjög undir högg að sækja, ekki bara hér á landi heldur um allan hinn vestræna heim. Til að mynda lýsti forstjóri áhrifamesta fréttamiðils heims, Twitter, því yfir núna fyrir fáeinum dögum að miðillinn ætlaði sér ekki að verja málfrelsi, það væri liðin tíð. Hann ætlaði sér ekki að verja fyrstu breytingu bandarísku stjórnarskrárinnar sem á að tryggja málfrelsi þar í landi. Tilgangur miðilsins væri frekar að beina umræðunni í ákveðna átt. Þetta sjáum við gerast í mjög auknum mæli með ofurvaldi nýju samfélagsmiðlanna og verður að segjast með valdi margra hefðbundinna miðla einnig, til að mynda ríkismiðla sem hafa haft tilhneigingu til að segja ákveðna sögu í stað þess að segja bara fréttir, búa til ákveðið „narratíf“, eins og það er kallað. Ég fagna því að fram komi þessi tillaga frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins — þó að við vitum auðvitað að ríkisstjórnin muni væntanlega ekki afgreiða hana en það verður áhugavert að fá umræðu um hana — en ef ríkisstjórninni er alvara með að taka á málefnum og starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi þá þarf liður í því að vera að treysta málfrelsi hér á landi því að það á í vök að verjast.