Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þessi gerð hjálpar að einhverju leyti. Eins og segir í henni:

„… í öðru lagi að skipulag samstæðu hindri ekki eftirlit og í þriðja lagi að eigendur virkra eignarhluta, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri séu metnir hæfir.“

Það stendur ekki fullkomlega að það eigi að vera vitað hverjir þeir eru. Það hefur reyndar batnað með tilkomu þess að við þurftum orðið að skrá raunverulega eigendur félaga, nokkuð sem setti okkur nú á gráan lista á sínum tíma. Það hefur bætt það örlítið. En það að hluthafaskrár séu ekki aðgengilegar er dálítið sem að sjálfsögðu gerir það erfiðara að finna hvar hlutirnir liggja í þessum kóngulóarvef eignarhaldsfélaga. Það er líka vel þekkt að ein af góðu leiðunum til að fela hluti er að vera með eignarhaldsfélögin dreifð víða um heim. Það er von manns að að hluta til leiði gerð eins og þessi og önnur svipuð til þess að innan EES verði erfiðara að fela slíka hluti innan þess. Já, skref í rétta átt en kannski ekki eins stórt skref og við myndum vilja sjá.