152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Körfuboltaþjálfarinn frægi, John Wooden, sagði eitt sinn, með leyfi forseta, að hin sanna mælistika á siðferði einstaklings væri hvernig hann hegðaði sér þegar hann héldi að enginn væri að fylgjast með. Við sem fulltrúar á hinu háa Alþingi hljótum að gera þá kröfu til okkar sjálfra og þeirra sem hér sitja í umboði kjósenda að kynþáttahatur og kvenfyrirlitning fái ekki lengur að líðast, hvort sem það gerist innan þessa salar eða utan. Orðum fylgir ábyrgð, völdum fylgir ábyrgð og ef við ætlum að kalla okkur land jafnréttis og mannréttinda, ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að vera kyndilberi jafnréttis- og mannréttinda á alþjóðavettvangi, ef þetta eru ekki bara allt innantóm orð þá þarf að axla ábyrgð á gjörðum hæstv. innviðaráðherra.