152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hjá nágrannaþjóðum okkar, tel ég mig alveg fullvissa um, væri ráðherra núna að segja af sér. Þetta voru rasísk ummæli sem eru fyrir neðan virðingu ráðherra, fyrir neðan virðingu þingsins, sem hann hefði aldrei átt að láta frá sér. En ekki nóg með það. Þessi ummæli eru brot á lögum sem hans eigin ríkisstjórn setti fyrir fjórum árum síðan. Þetta eru lög sem hæstv. fjármálaráðherra tók þátt í að setja (Gripið fram í.) og aðrir ráðherrar. Það er ríkisstjórnin sem setti þessi lög. Ætlum við að sætta okkur við það að ráðherra brjóti lög sem hann sjálfur setur sisvona? Og ekki nóg með það að hann segi ekki af sér eins og tíðkast í öllum öðrum þróuðum lýðræðisríkjum heldur ætlum við ekki einu sinni að taka umræðuna um það hér í þingsal af því að það er búið að ákveða fyrir fram hvernig umræðan eigi að vera. Mér finnst þetta ekki í lagi. Ég bið (Forseti hringir.) forseta vinsamlegast um að skapa smá rými í dagskránni næstu daga til þess að ræða þetta mál. Við verðum að fá að ræða við ráðherra um þetta.