152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Því miður er þessi ríkisstjórn að hefja sitt seinna tímabil og fyrir fyrra tímabilið var sagt að þessi hópur gæti ekki beðið lengur eftir réttlætinu, en ég sé að hann á að bíða áfram alveg út líftíma þessarar ríkisstjórnar. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum eðlilegt að vera að tala um kaupmátt og meðaltöl þegar við vitum að það er stór hópur þarna undir sem er ekkert að fá þennan kaupmátt? Við vitum að það er stór hópur. Það eru á sjötta þúsund börn sem lifa við fátækt og við vitum að það er nærri því annar jafn stór hópur á línunni við að detta niður í fátækt. Þetta er búið að vera svona á líftíma þessarar ríkisstjórnar. Ég spyr: Finnst honum eðlilegt að koma með fjármálaáætlun þar sem er ekki á nokkurn hátt gerð minnsta tilraun til að bæta úr þessu sem hefur verið lofað aftur og aftur fyrir kosningar?