152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og mig langar líka að spyrja hann um það sem hann nefndi áðan um að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til uppbyggingar hjúkrunarheimila eftir árið 2024. Við fengum að upplifa það í nefndinni í gær, í samtali við heilbrigðisráðuneytið, að þannig væri um hnútana búið. Maður veltir fyrir sér: Hvernig getur þetta staðist? Við vitum að eitt hjúkrunarheimili rúmar kannski 50–100 manns og þau geta kostað einhverja 5 milljarða í uppbyggingu, 2,5–5 milljarða eftir því hversu stór þau eru. Ef það á ekkert að byggja neitt í þrjú ár, 2025, 2026, 2027, hver verður þá staðan? Eins og hv. þingmaður segir þá þurfum við kannski að fjárfesta í dag annars bítur það í skottið á okkur í framhaldinu. Þetta er ekki inni í fjármálaáætlun. Síðan hefur líka verið nefndur þjóðarleikvangur og það fór allt á hliðina í samfélaginu þegar það var upplýst að hann er ekki inni í áætluninni. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sagði eitthvað á þann veg að við ættum ekki að lesa of mikið í þetta. En maður spyr: Til hvers er verið að gera áætlanir? Ég hef lært það að áætlanir eru til að reyna að gera sér grein fyrir stöðu fram í tímann og móta sínar vinnuaðferðir í samræmi við það. En ég er ekki að sjá það. Það er búið að tala um að þjóðarleikvangurinn, handbolta- og fótboltahöll, kosti 6–8 milljarða og svo getur fótboltavöllurinn sjálfur verið framkvæmd upp á 15 milljarða alla vega. Það er þá bara verið að segja að sú skuldastaða sem verður í lok tímabilsins sé ekki rétt.