152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er líka vinstri maður, bara svo að það sé sagt, ef við erum í keppni um það þá vil ég halda því til haga. (JPJ: Förum í keppnina. )Og af því að hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu sölu ríkiseigna þá vil ég halda því til haga að við höfum rætt það mjög ítarlega í fjárlaganefnd að fara yfir sölu Íslandsbanka sem átti sér stað hér á dögunum og munum kalla eftir frekari svörum. Það hefur líka komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það þurfi þá bara að breyta lögum ef svo ber undir, ef við þurfum að kalla eftir því. Það er í sjálfu sér ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að selja fleiri eignir, a.m.k. ekki stórar ríkiseignir ef við getum sagt sem svo. En ég minni hv. þingmann á að það er heimildargrein í fjárlögum hvers árs sem inniber gríðarlegan fjölda af alls konar eignum sem ríkissjóður hefur heimild til að selja.