152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar við þessa fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2023–2027 að koma inn á nokkur atriði sem ég tel að væri skynsamlegt að horfa að einhverju marki til við meðferð nefndarinnar fram til síðari umræðu. Í fyrsta lagi langar mig að nefna samgöngumálin. Við heyrum stöðugt af því að aldrei hafi verið gert meira, að við höfum séð fram á þannig framkvæmdatíma undanfarin misseri að þjóðin hafi aldrei litið annað eins framkvæmdaátak augum. Í gær barst mér svar við fyrirspurn sem ég lagði fyrst fram fyrir réttum 300 dögum síðan til hæstv. innviðaráðherra og ítrekaði síðan þegar þing kom saman í haust, þar sem var raunverulega skoðað, frá árinu 1999 í ákveðnu samhengi, og frá 2003 í öðru, með hvaða hætti nýfjárfestingar í vegakerfinu hefðu raunverulega þróast. Þar kemur fram allt önnur mynd en hefur verið haldið fram hér í þingsal það sem af er þessu þingi og allt síðasta kjörtímabil og það passar við þann tón sem berst frá greiningaraðilum, hvort sem það eru greiningardeildir banka eða aðrir hagaðilar, að nýfjárfesting, sem sagt opinber fjárfesting, er ekki að skila sér til enda eins og upp er lagt með í áætlunum. Þegar þessi gögn liggja fyrir frá því í gær varðandi samgöngufjárfestingarnar þá held ég að það væri hollt að skoða með hvaða hætti þessir þættir koma fram hvað aðrar fjárfestingar varðar, hvort sem það eru fjárfestingar í hjúkrunarheimilum eða öðrum þeim innviðum sem um ræðir hverju sinni.

Síðan sjáum við núna í fjármálaáætluninni sem liggur fyrir, ef við skoðum nýfjárfestingartölurnar til ársins 2027, þá eru þær áætlaðar á árinu 2023, á næsta ári, 32 milljarðar, 28 árið þar á eftir, svo 26, þá 26 og 25, þ.e. innan áætlunartímans, frá árunum 2023–2027, lækka áætluð framlög í fjárfestingu hvað varðar samgöngu- og fjarskiptamál um 22%, úr 31 milljarði og 970 milljónum í 25 milljarða og 143 milljónir, sem sagt úr 32 milljörðum kr. niður í 25 innan áætlunartímabilsins. Þetta finnst manni ekki passa við þá mynd sem er reynt að draga upp hvað nýfjárfestingar og opinberar fjárfestingar varðar. Aftur á móti passar þetta við þá mynd sem er dregin upp hjá þeim aðilum sem greina þessar rauntölur daginn út og daginn inn.

Sömuleiðis tel ég ástæðu til þess að í nefndarvinnunni verði litið til með fjármálum sveitarfélaga. Í þeim efnum horfi ég sérstaklega á jöfnunarsjóðinn. Þar þarf fyrst og fremst að líta til tveggja þátta, í fyrsta lagi þessara svokölluðu sameiningarstyrkja sem sveitarfélög eru að horfa til og hefur þeirri gulrót vissulega verið flaggað landið um kring og það má vera ágætt, en þeirri gulrót hefur verið flaggað, víða a.m.k., á þeim forsendum að þar séu nýir peningar að koma inn, þegar staðreyndin er sú að verið er að taka þessa sameiningarstyrki innan úr þegar skilgreindum tekjupóstum jöfnunarsjóðs, þannig að það er þá minna til annarra þátta og áhrifin af þessu held ég að sé nauðsynlegt fyrir fjárlaganefnd að greina á milli umræðna.

Í öðru lagi held ég að það væri skynsamlegt að hv. fjárlaganefnd skoðaði hvort einhver sveitarfélög eru líkleg til að lenda undir verndarvæng eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaganna. Er ég þá sérstaklega að horfa til þess, sem ég mun vonandi fá tækifæri til að spyrja hæstv. innviðaráðherra út í hér síðar í dag þegar hann mætir til umræðunnar, með hvaða hætti ESA hafi verið svarað varðandi fyrirkomulag uppgjörs Reykjavíkurborgar í tengslum við uppgjör Félagsbústaða, þar sem 70 milljarðar geta fallið öfugum megin hryggjar, ef svo má segja, hvað uppgjör samstæðureiknings Reykjavíkurborgar varðar.

Sömuleiðis, af því ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er í salnum, kom hér upp umræða í tengslum við þjóðarleikvanga og að þeim væri hvergi staður fundinn í fjármálaáætluninni til næstu fimm ára. Þá var því haldið fram að horft væri til þess að nota uppsafnað fjárfestingarsvigrúm til að standa undir þeirri uppbyggingu þegar þar að kemur og ég vil spyrja, þó að ekki sé ljóst hvort ég fái svar hér, hvort þarna sé verið að horfa til þess að nota varasjóðina til þessara þátta, þ.e. er það fjárfestingarsvigrúmið sem um er rætt eða er gerð grein fyrir þessu svokallaða fjárfestingarsvigrúmi annars staðar í áætluninni og mér þá yfirsést það hvar þetta uppsafnaða fjárfestingarsvigrúm er að finna innan fjármálaáætlunarinnar eins og hún liggur fyrir? Þetta eru þeir þættir sem ég myndi gjarnan vilja beina til hv. fjárlaganefndar að skoða milli umræðna.

Síðan aðeins varðandi stóru myndina er auðvitað sitthvor sýn Hagstofunnar annars vegar og ýmissa greiningaraðila hvað þróun bæði hagvaxtar og verðbólgu varðar en það eru auðvitað þættir sem, svo að allrar sanngirni sé gætt gagnvart þeim sem vinna þetta plagg — það þarf að velja eitthvert viðmið og afstaða Hagstofunnar er auðvitað það viðmið sem valið er. En það þarf engu að síður að hafa í huga hversu miklu hærri áætlanir ýmissa greiningaraðila eru hvað varðar þróun verðbólgu heldur en afstaða Hagstofunnar eins og hún liggur fyrir núna.

Þetta er nú svona það sem ég vildi sagt hafa við þessa fyrri umræðu sem talsmaður Miðflokksins, að skoðuð verði sérstaklega þau þrjú atriði sem ég nefni hvað varðar samgöngumálin í fyrsta lagi, hvort það sé raunin að við séum að horfa á 22% samdrátt í nýfjárfestingum eins og stendur hér í plagginu á bls. 264 þar sem útgjaldaramminn er rammaður inn, áætluð framlög í fjárfestingu fara úr 32 milljörðum niður í 25 á þessu fimm ára tímabili, fjármál sveitarfélaganna, hvernig jöfnunarsjóðurinn er hanteraður í tengslum við sameiningarstyrkina annars vegar og hins vegar mögulega snúnari stöðu stórs sveitarfélags, og annarra svo sem sömuleiðis, og síðan hvar þessu uppsafnaða fjárfestingarsvigrúmi er staður fundinn í áætluninni og hvort þar sé þá um að ræða nýtingu á varasjóðunum eða hvar því er fyrir komið. Ég læt þetta duga í bili.