152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir mjög mikilvæga fyrirspurn. Nú er það svo að ekki er hægt að slumpa á tölu, hv. þingmaður veit það auðvitað og var ekki að biðja um það, um það hvernig við leiðréttum launamun kynjanna. En það er áhugavert að skoða hverju aðgerðir stjórnvalda hafa skilað, vil ég meina. Ég vil til að mynda nefna mál sem er nátengt flokki hv. þingmanns, Viðreisn, um jafnlaunavottun. Þegar við skoðum þær breytingar sem hafa orðið á launamun kynjanna þá höfum við séð hann minnka, og minnka hratt á undanförnum árum. Ég vil m.a. tengja það við innleiðingu jafnlaunavottunar þannig að aðgerðir stjórnvalda eru auðvitað að skila árangri. Þessi launamunur er mismikill eftir mörkuðum. Árið 2020 var hann minnstur hjá starfsfólki sveitarfélaga, þar næst hjá ríkinu og síðan á almenna markaðnum. En alls staðar fer hann minnkandi. Ég vil meina að það tengist þessu. Við sjáum að hann er núna 2,7% hjá sveitarfélögum og 3,3% hjá ríkinu. Þá kemur að því, sem hv. þingmaður vildi ræða, sem er sá launamunur sem enn er til staðar og er kannski að mestu leyti útskýrður með kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar sem er flókið úrlausnarefni. Ég skipaði aðgerðahóp um þetta mál, þ.e. launamun út frá stéttum. Sá aðgerðahópur er starfandi og þar sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga. Ég hef miklar væntingar til þess að sá hópur geti lagt fram raunverulegar aðgerðir. Ég lít svo á. Auðvitað höfum við ætlað okkur að útrýma þessum launamun, (Forseti hringir.) ekki bara í fyrra heldur fyrir mörgum árum og áratugum. En við sjáum raunverulegar breytingar og ég hef mikla trú á því að tillögur þessa aðgerðahóps (Forseti hringir.) verði kannski það sem hjálpar okkur að ná lokametrunum í þessu verkefni.