152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:46]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég vil segja það hér í þessum ræðustól sem Sjálfstæðismaður að ég tel að það sé bæði mannúðlegt og skynsamlegt að styðja þá sem verst eru staddir með fjárframlögum úr ríkissjóði en þegar fé er veitt úr þessum opinberu sjóðum þarf að hafa gott eftirlit með ráðstöfun þeirra fjármuna og gæta aðhalds. Nú hef ég setið í fjárlaganefnd og stundum sett hljóðan yfir því hvernig mér þykir gengið með nokkuð frjálslegum hætti um sjóði almennings. Ég vil minna á það í því samhengi að auðvitað er um að ræða fjármuni sem íslenskt launafólk og íslensk fyrirtæki hafa haft töluvert mikið fyrir að afla og það ber að bera virðingu fyrir þeirri staðreynd. Það liggur einnig fyrir að á tímum kórónuveirufaraldursins hafa miklir fjármunir runnið úr ríkissjóði. Þetta eru ákvarðanir sem vafalaust hafa verið teknar af góðum hug en í miklum flýti og umtalsverðar fjárhæðir þannig farið úr sjóðum hins opinbera.

Ég er með spurningu til forsætisráðherra sem tengist nýlegri frétt frá Bretlandi þar sem greining Oxford-háskóla leiðir í ljós að líkur eru taldar á því að allt að 10% af þeim fjármunum sem runnu úr ríkissjóði í þessum tilgangi, út af kórónuveirunni, hafi í raun tapast vegna fjársvika. Um er að ræða 37 milljarða punda. Nú er það, eins og ég segi, hlutverk þingmanna og ráðherra að verja hagsmuni skattgreiðenda (Forseti hringir.) með aðhaldi, eftirliti og ekki síst með ráðdeild. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til forsætisráðherra hvort til standi (Forseti hringir.) að gera úttekt á meðferð opinberra fjármuna sem runnið hafa úr ríkissjóði á síðustu misserum.