152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:43]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða fyrirspurn. Það er svolítið vandi okkar að eftir því sem tilfærslukerfin hafa tekið meira til sín hefur verið minna svigrúm fyrir fjárfestingar, sérstaklega í gegnum mörg síðustu ár, kannski ekki allra síðustu ár en árin þar á undan. Á sama tíma hafa fjárfestingar hins opinbera í heild verið umtalsverðar og eiginlega afgangur hjá A-hluta ríkissjóðs í fjárfestingum. Í mínum huga hefur það því skipt mjög miklu máli á síðasta kjörtímabili að við fyndum leiðir til að fjármagna samgönguframkvæmdir fyrir utan boxið eða fyrir utan hefðbundnar fjármögnunarleiðir og samgönguáætlun, samanber samvinnuleiðirnar, samanber höfuðborgarsáttmálann, samanber jarðgangaáætlunina sem við höfum verið að tala um. Þessar leiðir skipta mjög miklu máli og ég er sammála hv. þingmanni um að fjárfestingarstigið og þar með framkvæmdastigið er nú miklu lægra en það var á þessum góðu árum, á fyrsta áratug á þessari öld og lauk eiginlega á árinu 2010 þar sem menn hættu framkvæmdum eftir það. Síðan komu mörg mögur ár og þar skuldum við eiginlega enn, bæði í viðhaldi og fjárfestingu. Við erum enn að vinna upp þann halla. Þau fjárfestingarátök sem við keyrðum í gegn út af Covid hjálpuðu okkur verulega til að ná þessu framkvæmda- og fjárfestingarstigi í samgöngum á þokkalegan stað en þegar þeim sleppir förum við inn í fjármálaáætlun þar sem framlögin eru of lág. Vissulega má bæta þessum atriðum við, samvinnuleiðunum, (Forseti hringir.) höfuðborgarsáttmálanum, jarðgöngunum og Sundabraut og þá er framkvæmdastigið orðið hærra, en það er verkefni sem við þurfum að skoða í þinginu hvernig við getum hækkað fjárfestingar- og framkvæmdastig ríkisins.