152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Við höfum í raun ákveðið svigrúm til að forgangsraða og vega það og meta út frá forgangsröðun hvað skiptir mestu máli þegar kemur að sérstökum stuðningi við það samstarf og þá þætti sem hv. þingmaður nefnir. Það að við séum með málefnasviðið eins og það er, að einhverju leyti má þá segja að eðlilegt sé að það eigi eftir að útlista og skipta því frekar niður í fjárlögum og svo aftur einfaldlega með samningum og úthlutunum sem við gerum jafnt og þétt yfir árið. 16 millj. kr. lækkunin á samningsbundnum framlögum til varnarmála; hér er um að ræða lækkun á grundvelli samnings um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin og aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ég hef heilt yfir ekki miklar áhyggjur af því að við náum ekki að sinna því sem við viljum og þurfum að sinna þegar kemur að þeim þáttum sem hv. þingmaður fer hér yfir. Vissulega segi ég bara að í því eins og öðru á við að þegar staðan er eins óljós og óvissan jafn mikil þá kann líka að koma til að það verði einfaldlega til ný verkefni sem við munum þurfa að bregðast við til að geta gert það sem við teljum okkur þurfa að gera og það sem krafist er af okkur.