152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Fjármálaráðherra talar eins og það sé eitthvað óeðlilegt að það sé listi yfir æskilega kaupendur að mikilvægum fjármálafyrirtækjum. Er ekki eðlilegt að orðspor kaupenda sé metið og við sitjum t.d. ekki uppi með gamla eigendur Glitnis og Kaupþings í nýjum hluthafahópi? Orðspor þeirra er að fyrir tíu árum fór banki sem þeir gömbluðu með svo mikið á hausinn að fullt af fólki sem ekki voru þeir sat uppi með tugmilljarða óuppgerðar kröfur. Nú bara fá þeir að kaupa banka á afslætti. Þetta er væntanlega sama fólkið og fékk 20% afslátt af krónum þegar var komið með milljarð evra inn í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Það er nú rannsókn sem var stoppuð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af núverandi stjórnarliðum á síðasta kjörtímabili. Það er eitthvað sem mætti skoða í þessu samhengi. En við vitum náttúrlega að það er alltaf hægt að finna afslátt handa eignafólki hjá þessari ríkisstjórn. Það er engin lexía í því. Lexían ætti kannski að vera að þegar Sjálfstæðisflokkurinn einkavæðir banka (Forseti hringir.) þá þarf bara samhliða því, sjálfkrafa eiginlega, áður en ferlið fer af stað, að setja af stað rannsóknarnefnd. (Forseti hringir.) Þetta virðist bara vera regla, herra forseti. Flokkurinn getur ekki einkavætt banka án þess að klúðra því. (Forseti hringir.) Hin lausnin var náttúrlega að hleypa honum ekki til valda en við sem höfum tjáð okkur hér í dag erum saklaus af því sem betur fer.