152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:47]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Bara svo við séum með á hreinu hvað við erum að gera hérna. Við erum að biðja um rannsóknarskýrslu og það þarf að koma fram tillaga um hana. Ég styð það eindregið og allt sem hér hefur verið sagt um það að flýta framgangi þess máls og fagna því að stjórnarliðar hafi komið hér upp til að styðja það. Ég vil bara sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar líka ítreka það að nefndin tekur við skýrslum Ríkisendurskoðunar og þegar búið er að nefna sérstaka rannsókn þá er málið komið í þann farveg í þinginu. Mér heyrist að sá farvegur verði sá sem við setjum málið í og ég ætla að fá að fagna því.

En ég get ekki orða bundist, hæstv. forseti, fyrst Ríkisendurskoðun var blandað í málið, að nefna það að ríkisendurskoðandi var „sjanghæjaður“ af framkvæmdarvaldinu frá þinginu og við þurfum auðvitað að hafa hér ríkisendurskoðanda til að hann geti sinnt starfi sínu líka.