152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:13]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir umræðurnar hér í dag. Hv. þingmaður kom einmitt inn á mikilvægi þess að það séu til störf fyrir fólk sem eru fjölbreyttari en þau sem við eigum í dag. Við erum sem samfélag mjög föst í því að hér eigi allir að vera í 100% vinnu eða jafnvel meira en það. Þetta þekkjum við hv. þingmaður bæði mjög vel og þess vegna er verið að stíga þetta fyrsta skref á næsta ári til að reyna að fjölga störfum sem geta frekar gripið það fólk sem er með einhverja starfsgetu. Hv. þingmaður lýsti því mjög vel og það er kórrétt að stundum getur fólk unnið í einn mánuð fullt starf og svo kannski 20% næsta mánuð eða það kemur hlé. Ég tel að við þurfum að hafa þau tól og tæki hjá hinu opinbera til að aðstoða atvinnulífið til þess að takast á við þessar áskoranir því að þær eru allt aðrar en að hafa bara hlutastörf, svo dæmi sé tekið. Manneskja sem er í 50% starfi og er bara í því alla daga — það er annars konar stuðningur og utanumhald sem þarf til að veita slíkri manneskju tækifæri á atvinnumarkaði en þeirri sem þarf á að halda sveigjanlegum störfum. Og af því að hv. þingmaður nefnir starfsgetumatið í Bretlandi þá get ég sagt að það er enginn að horfa til þess. En við erum vissulega að horfa til þess að við séum með starfsgetumat til að fjölga þeim sem fara út á vinnumarkaðinn og finna þá réttar leiðir fyrir fólk til að geta tekið aukinn þátt í samfélaginu, í vinnu, með aukinni virkni annars staðar í samfélaginu og að finna meira gildi í lífinu. Hluti af því er að vera þátttakandi í samfélaginu og að hafa atvinnu.