152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vek athygli þingmanna á fylgiskjali með þessu frumvarpi sem er til fyrirmyndar, þar er sýndur munurinn á núgildandi lögum og breytingunum, það er strokað yfir og sýnt hvað kemur í staðinn. Það er mjög hjálplegt í svona tæknilegum málum þar sem verið er að skipta út orðum fyrir þessi orð í þessari grein og þessari málsgrein o.s.frv. Þegar maður skoðar þetta þá sér maður nánar samhengið í öllu. Í fyrstu greinunum er t.d. verið að breyta Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta yfir í Tryggingarsjóð vegna fjármálafyrirtækja. Það er fullt af nafnabreytingum þarna.

Það eru nokkur atriði sem ég rek augun í og eiginlega eitt það fyndnasta sem mér finnst eða kannski það kaldhæðnislegasta, ef ég orða það þannig, er í nýrri 87. gr. a, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir 3. mgr. skal fyrirtæki greiða fast framlag í skilasjóð […] ef heildareignir þess eru minni en jafnvirði eins milljarðs evra í íslenskum krónum og heildarskuldbindingar að frádregnum eiginfjárgrunni og tryggðum innstæðum eru jafnar eða lægri en að jafnvirði 300 milljónum evra í íslenskum krónum.“

Nú flakkar gengið fram og til baka og ég velti fyrir mér að ef við værum á evrusvæði hefði þetta alla jafna ekkert rosalega mikil áhrif á fyrirtæki þar sem þau eru alltaf með sína stöðu í evru. En hérna þarf þá stöðugt að vera að fylgjast með því hvert gengið er, hvort fyrirtæki hoppi undir eða yfir þessi viðmið og það getur gert það alveg fram og til baka án þess í rauninni að menn hafi hugmynd um það því að kannski breytist staðan í íslenskum krónum ekkert en ef gengi evru flöktir eru allt í einu komin ákvæði þarna sem þarf að fylgja og allt í einu þarf að greiða framlag í skilasjóð. Hvernig á að meðhöndla það hluta af ári eða hluta úr degi eða hvernig sem það fer á flakk? Ég klóra mér aðeins í hausnum yfir þessu. Það er búið að vera smá rifrildi um það hvort eigi að taka upp evru á Íslandi, losa okkur við krónuna. Nú er farið að setja þessar evrur í lög í staðinn fyrir krónur. Mér finnst það pínu kaldhæðnislegt. Kannski er þetta vegna tilskipunar, það séu bara kröfur um að hafa þetta jafnvirði 500 milljóna evra, það séu skilyrði um að hafa evrur þarna. Allt í lagi. En væri ekki eðlilegt að þýða þetta yfir í íslenskar krónur og uppfæra kannski á ársfresti eða eitthvað því um líkt, miða við einhverja gengisstöðu til þess að fyrirtækin séu með mun fyrirsjáanlegri mælikvarða í þeim miðlum sem þau nota alla jafna? Nema að fjármálafyrirtækin séu bara alltaf að gera upp í evrum hvort eð er sjálf. Þá kannski skiptir þetta ekki miklu máli fyrir neinn annan þau. Þetta kemur náttúrlega inn í þessa klassísku umræðu, það eru sumir hérna sem gera alltaf upp í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum á meðan íslenskur almenningur er bara með krónugildið. Ég mæli alla vega með því að fólk skoði þessa breytingu.

Það er annað sem ég klóra mér aðeins í hausnum yfir, það er breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þetta frumvarp er bandormur. Í 11. gr. frumvarpsins, sem verður 1. gr., er talað um að það sé verið að breyta markmiðinu með þeim lögum. Ég er að reyna að átta mig á því hvort það þýði eitthvað annað fyrir innstæðueigendur. Það er sagt:

„Markmið með lögum þessum er að veita lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laga þessara og laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja til innstæðueigenda og viðskiptavina fjármálafyrirtækja.“

En markmiðið með lögunum var sem sagt að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem veita fjárfestingarþjónustu o.s.frv. lágmarksvernd. Ég er að reyna að átta mig á því hvernig verndin gagnvart innstæðueigendum púslast saman í þessum breytingum á núgildandi lögum. Markmiðið með þeim er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum lágmarksvernd en núna á sem sagt að veita lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja til innstæðueigenda. Þetta orðalag, ég klóra mér aðeins í hausnum yfir þessu. Ég átta mig ekki alveg á því hvort markmiðinu um að veita innstæðueigendum lágmarksvernd sé viðhaldið. Þetta eru þó nokkrar breytingar og það hjálpar tvímælalaust að hafa þetta samanburðarskjal. Það er gjörsamlega ómögulegt að reyna að lesa þetta úr lagafrumvarpinu sjálfu. Og þá rekur maður augun í svona mun því að alla jafna er bara verið að breyta t.d. nafninu á þessum sjóði í Tryggingarsjóð vegna fjármálafyrirtækja úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Svo er talað þarna um innstæðudeild og svoleiðis og maður pínist pínulítið, þrátt fyrir að maður hafi þetta breytingaskjal fyrir framan sig. Þannig að mér þætti vænt um að fá smáskýringar í umfjöllun nefndarinnar varðandi þessa innstæðueigendur. Það er kannski hjartans mál hjá okkur Íslendingum eftir bankahrunið að innstæður séu tryggðar, að innstæður almennra borgara í viðskiptabönkum séu tryggðar á viðeigandi hátt. Það var tekin sérstök ákvörðun um að tryggja bara allt heila klabbið sem kostaði ýmislegt auðvitað en var alveg sjálfsögð ákvörðun þótt hún hafi mögulega haft víðtækari áhrif varðandi það hverjir nákvæmlega væru þar undir. Það var gamalt ferli. En ég sé þessa orðalagsbreytingu um lágmarksverndina og mér finnst verið að færa markmiðið frá því að vera markmið um að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum lágmarksvernd yfir í það að veita lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja. Sú vernd gæti einmitt náð til innstæðueigenda og viðskiptavina fjármálafyrirtækja, allt í lagi, en mér finnst það bara óljósara með þessu orðalagi þannig að það væri fínt að fá betri skýringar á því í nefndaráliti hjá nefndinni.

En annars, þegar maður er búinn að gera smá grín að þessum evrubrandara, þá er þetta mjög áhugavert mál. Ef ekki væri fyrir EES-samstarfið þá held ég að við værum í miklu verri málum. Við erum að fá svo rosalega mikið. Þetta er tæknilegt mál sem við erum að glíma við og bolmagn okkar eða frumkvæðisvilji stjórnvalda til að fara út í flókin og tæknileg kerfisbreytingarmál virðist vera gríðarlega lítill. Við þurfum einhvern veginn að fá það utan frá, skipun um það: Hérna er nýtt kerfi sem þarf að innleiða, gjörið svo vel. Við verðum að gera það út af samningi sem við erum með þar um. Annars værum við alltaf bara í gömlu kerfunum okkar sem úreldast smám saman og fleiri eru alltaf að misnota aðeins meira og að lokum springur allt í andlitið á okkur. Það er einhvern veginn sú menning hérna að við segjum: Við bjuggum þetta til einu sinni og þetta er frábært og kemur til með að virka að eilífu. Þangað til það hættir að virka. Það er einfaldlega af því að samfélagið breytist og þróast og tæknilausnir breyta því hvernig við stundum viðskipti og notum banka og þess háttar. Kerfin sem við bjuggum til einu sinni voru frábær þá en þau einfaldlega úreldast og verða ónothæf eftir því sem á líður varðandi skilvirkni, hraða o.fl. Einnig varðandi frumleika, svona nýsköpunarhyggju ýmissa í viðskiptum sem eru að búa til flókin eignarhaldsnet og þess háttar og maður hefur séð að jafnvel opinberar stofnanir hafa einfaldlega ekki bolmagn til þess að fylgjast með því hver er að gera hvað. Við fengum góða kynningu á þessu t.d. frá Bretlandi þar sem er bara svona net fyrirtækja sem sér um til að mynda hjúkrunarheimili sem nota alls konar leigusamninga fram og til baka til þess í rauninni að féfletta opinbera kerfið. Þar þarf greinilega einhverja betri lausn á fyrirkomulaginu þar sem þessir aðilar eru búnir að koma upp leikkerfi til að misnota lögin eins og þau eru uppsett. Við þurfum stöðugt að vera að elta það. Þetta mál er liður í því og ég geri bara þessar tvær athugasemdir, um evruna annars vegar sem mér finnst áhugavert að hafa þarna og hins vegar vil ég vera viss um að verndin sé þarna gagnvart innstæðueigendum. Ég sé það ekkert rosalega vel í textanum en það getur verið að þarna sé verið að vísa í önnur lög sem útskýra það frekar.