152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[12:57]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í stuttu máli er hér verið að leggja fram frumvarp og ef það verður að lögum verður leyfisveitendum heimilt að veita starfsleyfi til bráðabirgða áður en umhverfismat hefur farið fram eða ef í ljós kemur að umhverfismat er haldið galla eða, í þriðja lagi, ef umhverfismat hefur ekki farið fram þó svo að slíkt sé skylt. Þetta veldur mér miklum áhyggjum og ég tel ljóst að skoða þurfi þetta frumvarp rækilega í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar hér við þinglega meðferð málsins.

Markmiðið með frumvarpinu er að treysta heimild sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert alvarlegar athugasemdir við og hefur það markmið að draga mjög úr vægi reglna um mat á umhverfisáhrifum á sviði fiskeldis, enda leiðir af núgildandi ákvæði og beitingu þess hingað til að fiskeldisfyrirtæki geta gengið að því sem vísu að annmarkar á umhverfismati muni ekki hafa aðrar afleiðingar en þær að bæta þurfi úr slíkum annmörkum síðar með frekara mati. Með þessu hefur verið dregið úr hvata þessara fyrirtækja til að vanda til verka við umhverfismat, því miður. Bent hefur verið á að lagasetningin muni geta leitt til þess að framkvæmdaraðilar, sem eru þá fiskeldisfyrirtækin, muni hugsanlega í auknum mæli geta skilað inn illa unnum og ófullnægjandi gögnum vegna umhverfismats í trausti þess að leyfisveitendur veiti þeim leyfi til bráðabirgða án þess að framkvæma fyrst gilt umhverfismat. Þar liggur hundurinn grafinn, frú forseti, að leyfið er til bráðabirgða. Þegar starfsemi er hafin, fólk hefur tekið til starfa, búið er að skapa væntingar og oft búið að valda óafturkræfum umhverfisspjöllum er mjög erfitt að afturkalla leyfin.

Það er afar brýnt, frú forseti, að koma í veg fyrir að heimildin til að veita bráðabirgðaleyfi verði lögfest án þess að fullgilt umhverfismat fari fram. Þetta mál snýst um það að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sé gert með óumdeildum hætti, með fullnægjandi hætti og þar með liggi það fyrir ef veita þarf leyfi til bráðabirgða.

Það er verið að festa í lög, verði þetta frumvarp að lögum, heimild Matvælastofnunar til að sniðganga úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um mat á umhverfisáhrifum, sé það haldið galla. Það er mjög alvarlegt mál og það er beinlínis verið að lögfesta ákvæði sem gerir Matvælastofnun kleift að líta fram hjá úrskurðum umhverfis- og auðlindamála. Það er hreinlega ótækt og það má ekki gerast að hægt sé að ganga fram hjá úrskurðum stjórnvalds eins og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það er í raun lykilatriði hér í athugasemdum mínum og í athugasemdum Samfylkingarinnar við þetta mál að enginn vafi leiki á því að fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum sé forsenda þess að hægt sé að veita leyfið. Og líka, eins og fram kom í upphafi, að ekki sé hægt að viðurkenna gallað mat, hvað þá að gefa út leyfi ef matið hefur ekki farið fram.

Þetta eru kannski ekki mjög flókin mál en forsagan er erfið og íslensk stjórnvöld fengu skýrar ákúrur frá Eftirlitsstofnun EFTA um þetta mál sem nú er verið að reyna að bregðast við. Og það er mjög mikilvægt að stjórnvöld, umhverfisráðuneytið, bregðist þannig við að verið sé að svara ábendingum og tilmælum ESA og það sé alls ekki verið að reyna að festa í sessi framkvæmd sem verður til þess að framkvæmdaraðilar geti komist fram hjá því nauðsynlega skrefi, þegar farið er í stórframkvæmdir, sem oftast nær hafa veruleg umhverfisáhrif, að gera mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með fullnægjandi hætti. Við verðum að tryggja fagleg, viðunandi og lögleg vinnubrögð í þessu ferli eins og öllum öðrum.

Það má ekki vera þannig að kappið sem hlaupið hefur mönnum í kinn víða um land, og ég ætla alveg að viðurkenna að ég get skilið að víða sé áhugi fyrir því að setja á fót fiskeldi og áhugi fyrir því að efla starfsemi og atvinnurekstur í heimabyggð og út um landið, í þeim fjörðum þar sem fiskeldi gæti hugsanlega átt heima, verði til þess að vinnubrögðin verði ekki fagleg. Það er þeim mun mikilvægara að ákvarðanatökuferlið fari að lögum og að mat á umhverfisáhrifum fari fram og að þau stjórnvöld sem veita leyfi, leyfisveitendur, taki fullt tillit til niðurstaðna og álitsins sem kemur út úr umhverfismati framkvæmdarinnar. Til þess er umhverfismatið að bæta ákvarðanatöku sveitarstjórna og í þessu tilviki leyfisveitenda, sem eru Matvælastofnun og/eða Umhverfisstofnun, þannig að ákvörðun um framkvæmdir sé tekin með sem minnstu raski fyrir umhverfið, með sjálfbærni að leiðarljósi, með náttúruvernd að leiðarljósi og með samfélagslega hagsmuni til langs tíma að leiðarljósi.

Það er nefnilega þannig að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er ekki bara reitur á verkblaði sem hægt er að haka í og gera með einhverjum hætti. Dæmin sanna og sýna að þegar ákvörðunin er tekin hjá ríkisstofnun fyrir sunnan en afleiðingarnar verða í litlum firði fyrir austan, svo eitt nærtækt dæmi sé tekið, verður að vera skýr leið til að gera athugasemdir. Hún fæst í gegnum mat á umhverfisáhrifum og hún fæst einnig, eins og fram kom hér áðan, í andsvörum við hæstv. ráðherra, með því að sjónarmið almennings komi örugglega fram í leyfisveitingunni sjálfri hjá Matvælastofnun. Þetta þarf að vera í lagi og þetta frumvarp verður að vera þannig úr garði gert að hvort tveggja sé tryggt. Annars kemur löggjafinn ekki, að mínu áliti, til móts við þær ábendingar og þau tilmæli sem stjórnvöld hafa fengið frá ESA, bæði árið 2018 og aftur árið 2020 eftir að náttúruverndarsamtök höfðu leitað til ESA. Það ber að þakka Landvernd fyrir að gera það.

Áminningarbréfið, sem barst 15. desember 2021, fól í sér að sjónarmið í bráðabirgðaniðurstöðu ESA voru áréttuð en það er, eins og hv. þingmenn vita, fyrsta skrefið að formlegu samningsbrotamáli á EES-samningnum. Næsta skref er þá fólgið í útgáfu rökstudds álits áður en ákvörðun er tekin um hvort málinu sé vísað til EFTA-dómstólsins. Það er mjög mikilvægt að brugðist sé við niðurstöðu ESA með fullnægjandi hætti þannig að ekki komi til þessara næstu skrefa og að ríkisstjórn Íslands verði ekki dregin fyrir EFTA-dómstólinn í þessu máli. Ég fullyrði að hagsmunir Íslands, hagsmunir almennings og hagsmunir fyrirtækjarekstrarins og fyrirtækja í fiskeldi, fara saman við hagsmuni varúðarreglunnar, við þau faglegu vinnubrögð sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda tryggir og að ákvæði Árósasamningsins séu uppfyllt. Allt þetta er þessu stóra ferli nauðsynlegt. Það er ekki og getur ekki verið fyrirtækjunum, sem stundum fara fram meira af kappi en forsjá, til heilla að þessir ferlar séu sniðgengnir. Það er ekki þannig. Það mun alltaf á endanum verða besta niðurstaðan að farið hafi verið að faglegum vinnubrögðum, að það verði tryggt með þessari lagasetningu, ef af verður, og í þessu frumvarpi, að ábendingum ESA verði svarað með fullnægjandi hætti og það sé ljóst að það sé engin leið að veita bráðabirgðaleyfi án þess að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi farið fram; að það sé gert með fullnægjandi hætti og að það sé ljóst að í leyfisveitingaferlinu hafi almenningur aðkomu að því með sín sjónarmið.

Frú forseti. Þetta eru þau aðalatriði sem ég vildi koma á framfæri hér við 1. umr. um þetta frumvarp. Ég vil segja hér úr pontu að ég treysti því að fulltrúar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd vinni þetta mál þannig að úr verði frumvarp sem allir treysta sér til að styðja og gera að lögum og að við náum utan um þessar framkvæmdir og náum utan um umhverfismat fiskeldisframkvæmdanna og raskið sem því fylgir með fullnægjandi hætti. Það er enginn vafi í mínum huga að slík vinnubrögð munu skila okkur betri framkvæmdum, minni umhverfisáhrifum og samfélagi sem vonandi, a.m.k. í nærsamfélaginu, er þá að einhverju leyti sáttara við framkvæmdina. Og ég er ekki að segja að það sé alltaf þannig að allir séu ósáttir við hana. En við höfum dæmin, t.d. frá Seyðisfirði, um klofið samfélag vegna þess hvernig farið hefur verið fram.

Það er líka kostnaður, frú forseti, þegar lítil samfélög eru klofin í herðar niður vegna framkvæmda sem sannarlega eru umdeilanlegar og valda mjög miklum neikvæðum umhverfisáhrifum, þegar það liggur fyrir að framkvæmdirnar gera það en það á samt að veita leyfið. Hvað gera heimamenn þá? Fólk verður að hafa þau verkfæri í sínum höndum að geta komið málefnalegum sjónarmiðum á framfæri og haft áhrif á niðurstöðuna og að leyfisveitendur verði að hlusta á sjónarmið almennings.