152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:12]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á mikilvægan þátt í þessu máli í ræðu sinni um fundarstjórn fyrr í dag. Hún vísaði þá til 2. mgr. 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og benti á að hæstv. fjármálaráðherra þarf sjálfur að taka ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eftir að þau liggja fyrir. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki þvegið hendur sínar af því að faðir hans hafi keypt hlutabréf þegar lög gera ráð fyrir að hann eigi að leggja mat á þau tilboð sem hafa borist og taka ákvörðun um hvort þau skuli samþykkt. Lagagreinin hljóðar svo:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Ráðherra ber fulla ábyrgð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)