152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að nota þetta tækifæri til þess spyrja hv. þm. Andrés Inga Jónsson aðeins út í það hvort hann telji að það sem hér er lagt fram geti hugsanlega uppfyllt kröfur Árósasamningsins. Ég hjó eftir því að ekki er komið svar til náttúruverndarsamtakanna sem skutu málinu líka þangað. Ef ég skil þetta frumvarp rétt þá felst samráðið við almenning í því að leyfið sé birt í eina viku í samráðsgátt stjórnvalda áður en það er tekið til endanlegrar afgreiðslu. Jú, jú, það er auðvitað hægt að orða það þannig að þar með sé tikkað í það box. En ég velti fyrir mér hvort við séum í raun að horfa upp á eitthvað sem gæti verið einhvers konar — nú er ég að reyna að leita að íslensku orðunum, það er stundum talað um „window dressing“ á ensku, eitthvað sem gæti litið vel út en þjónar í rauninni ekki tilgangi sínum.