Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég virði þetta, enda er alveg ljóst að þegar hæstv. ráðherra kemur síðar í vikunni þá verður hún spurð um þetta. Þetta er risamál og það skiptir máli — ég talaði um stóru myndina áðan — að átta sig á því hvernig þetta var sett fram þar. Ég sé hér nafn forsætisráðherra sem hefur í raun óbeint, jafnvel beint, verið að snupra varaformann Framsóknarflokksins. Það er mjög merkilegt, finnst mér, kannski ómerkilegt líka, hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur verið að snupra varaformann Framsóknarflokksins fyrst varaformaður Framsóknarflokksins hefur haft þessa skýru skoðun að fara aðra leið en ríkissjóður skilar síðan áfram. Þetta er ekki einhver ráðherra. Þetta er ekki bara varaformaður Framsóknarflokksins. Þetta er ráðherra viðskipta. Þetta er ráðherrann sem fer með viðskiptin og hefur setið í ráðherranefnd um efnahagsmál. Fyrir okkur, fyrir eftirlitshlutverk þingsins, og til að sjá samhengi hlutanna, tímalínuna, á hún að skýra þetta til að við reynum að átta okkur á því af hverju við erum lent í þessum hremmingum með bankasöluna. (Forseti hringir.) Það skiptir máli að við fáum skýr svör frá Framsóknarflokknum, að hann hafi haldið vöku sinni í þessu ferli.