Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er að sjálfsögðu ráðherra að færa málefnaleg rök fyrir því. Hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra reyndi og mistókst hrapallega, gat samt reynt og hefði mögulega getað fundið einhver betri rök ef hann hefði reynt betur, ég veit það ekki. Í þessu tilfelli og miðað við listann, og hér er ég bara að fabúlera — ég tók nokkur dæmi og hef gert það í samfélagsumræðunni um aðila sem litu ekki út fyrir að vera hæfir fagfjárfestar. Það er skilyrðið sem var sett þannig að ráðherra gæti sagt: Fyrirgefðu, ég vil að það sé skoðað hvort þessi aðili sé örugglega hæfur fagfjárfestir. Hann er ekki að taka persónulega ákvörðun um það, hann er að láta skoða hvort hann uppfylli öll skilyrðin. (Gripið fram í.) Það er faglega greiningin á því. Það eru forsendurnar og skilyrðin sem ráðherra setti inn í söluferlið. Hann er að taka það til baka og sjá hvort niðurstaðan sé samkvæmt því eða ekki. Ef einhver aðili virðist ekki uppfylla þær kröfur þá biður hann um greiningu eða rökstuðning fyrir því að svo sé. Ef ekki — hérna er náungi sem er að kaupa fyrir 1,1 milljón og hann getur bara keypt á eftirmarkaði. Hugmyndin var að selja fyrir stærri hlut. Hendum öllum þessum sem við erum með undir 5 milljónum eða eitthvað svoleiðis burtu. Þetta er bara bull, við erum ekki að fara að selja svona aðilum á tilboði. Við erum að fara að selja stærri aðilum til margra vikna alla vega. Það væru málefnalegar forsendur samkvæmt skilyrðum ráðherra sjálfs. Ég átta mig mjög vel á því að ráðherrar eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins fatti þetta ekki því að ég hef aldrei séð ráðherra Sjálfstæðisflokksins ná einmitt þessu. Þeir fara alltaf inn á þetta á pólitískum forsendum, samkvæmt sínu brjóstviti: Ég er nú lögfræðingur og mér finnst bara þetta. Það er rangt, alltaf rangt.