152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:32]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherranum fyrir þetta. Ég var svo sem ekkert að halda því fram að þetta væri algjört aðalatriði í málinu, uppstokkun Stjórnarráðsins, en mér fannst bara mjög mikilvægt að halda því til haga vegna þess að það var svo stór aðgerð. Það var líka mjög kostnaðarsöm aðgerð. Við fórum svo vel yfir það í vinnslu málsins að það gæti verið vandasamt að gera þetta. Ein af þeim röksemdum sem við vorum einmitt að benda á í því var að með því að brjóta niður þessi síló þá væri hægt að ná fram kannski hagræði í því hvernig mál eru unnin og það allt saman. En síðan kom á móti, og það var líka bent á það í umsögnum, að færri og sterkari ráðuneyti væri kannski það sem væri betra að gera frekar en að fjölga þeim eins og reyndin varð í þeirri vinnu sem hér er verið að vísa til. Ég vona að það reynist eins og ráðherra segir. Ég árétta að ég geri mér grein fyrir því að það tekur oft tíma að straumlínulaga svona lagað og við erum bara komin nokkra mánuði inn í þetta kjörtímabil og það á eftir að koma betur í ljós hvernig til tekst. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér í því að þetta verði til þess að þjónusta við börn verði betri og að biðlistar styttist og auðvitað væri það endanlegt markmið að útrýma þeim algerlega. Ég held að börnin okkar eigi það skili að þau komist alltaf beint í þá þjónustu sem þau þurfa. Þannig að ég árétta að ég er ekki hér uppi til þess að tala þetta mál niður heldur bara að halda til haga þessum varnaðarorðum sem manni virðist að einhverju leyti vera að raungerast núna (Forseti hringir.) þótt ég ætla að leyfa mér að taka undir með hæstv. ráðherra um það að vonandi verður þessi uppstokkun til þess að hagsmunum barna verði alltaf gætt.