152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

bankakerfi framtíðarinnar.

[11:06]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, það var gefin út hvítbók um bankakerfið á síðasta kjörtímabili sem var leiðarljósið um það hvernig framtíðarskipan fjármálakerfisins ætti að vera. Ég tel að jafnvel þó að við hefðum klárað þá hvítbók sé margt sem við getum lært af þýska bankakerfinu og það er reyndar svo að gömlu sparisjóðirnir höfðu sömu hugmyndafræði. Ég tel að við höfum verið fullfljót að afskrifa sparisjóðakerfið sem var einmitt hugsað, eins og hv. þingmaður lýsti — það var samvinnuhugsjónin sem er nú mjög hátt skrifuð hjá okkur Framsóknarmönnum. Ég tel að við eigum ekki algerlega að útiloka það, bara alls ekki. Ég tel að við eigum að vera opin gagnvart því að fleiri fjármálastofnanir hafi það að markmiði að efla samfélag sitt og bjóða upp á góða þjónustu sem sé ódýr. Ég er því sammála hv. þingmanni um það að þetta sé eitthvað sem við eigum að skoða. Við eigum ekki að láta hrunið, fjármálahrunið, algerlega móta skoðun okkar á því sem fór úrskeiðis hjá gömlu sparisjóðunum.