152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Það sem skiptir máli í þessu er auðvitað aðdragandinn, pólitíkin að baki þeim hræðilegu ákvörðunum sem leiddu til þessarar niðurstöðu. Ég ætla að fá að vitna til orða hæstv. viðskiptaráðherra í fjölmiðlum, hennar eigin orða. Hún segir, með leyfi forseta:

„Ég var ekki hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söluna á bréfum í Íslandsbanka, vildi almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta.“

Þessum sjónarmiðum kom ég skýrt á framfæri í aðdraganda útboðs. Hún sagði jafnframt:

„Ég er þó ekki á því að hægt sé að skella skuldinni alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar og þykir miður að málið sé einfaldað þannig. Ábyrgðin hlýtur að vera stjórnmálamannanna sem tóku ákvörðun í málinu.“

Hún hefur að vísu breytt um afstöðu síðan, stjórnarmeirihlutinn vill vera hér í þessum sal að ræða um konfektkassa sem Jón úti í bæ þáði, en ekki um sínar eigin ákvarðanir.